Miskunnarlausar aftökur efnahagsböðla halda skýlaust áfram...

Það eru engn grið gefin af hálfu kröfuhafa og miskunarlausar aftökur efnahagsböðla eru fleiri en nokkurn tíman áður í sögu okkar.   þess vegna langar mig bara að benda ykkur á myndbrot hjá Gunnari Waage hérna á moggablogginu í dag.

Þar á ferðinni er upptaka frá uppboði á húseigninni að Álfaskeiði 74 í Hafnarfirði. Þvíkt og annað eins ofbeldi og viðbjóður og þvílíkiir glæpamennska. Þetta myndbrot snerti mig djúpt og ég fann bæði fyrir mikilli reiði um leið og ég felldi tár.

Það erum örugglega margir sem hafa nú þegar lent í sömu sporum og þessi fjölskylda og við erum auk þess örugglega ennþá fleiri sem eigum á hættu að missa heimili okkar á sama hátt.  Í.þ.m. sveið það mann illilega að sjá framgöngu uppboðshaldara og enn verra að sjá lögmenn kröfuhafa bjóða svívirðilega lágt verð í eignina.  Þvílíkir hrægammar sem vinna í skjóli stjórnvalda.

Hugsið ykkur bara ósvífnina og hreinlega grimmdina sem ræður ríkjum, bankarnir ásamt öðrum kröfuhöfum sem í flestum tilvikum ríkið og útsendarar þess.

Þetta bara gengur ekki lengur við VERÐUM AÐ GERA EITTHVAÐ Í MÁLINU, svona getur þetta EKKI gengið LENGUR.

Ég hvet ykkur öll að horfa á myndbrotið ég held það láti engann ósnortið,

Bestu kveðjur til ykkar

 


Enn á ný eitt reiðarslagið enn, nú hljóta hlutirnir að.....

Mér er nú eiginlega allri lokið. Þegar ég hélt nú loksins að áföllin yrðu nú ekki fleiri þetta árið þá kemur eitt reiðarslagið enn.

Annar æskuvinur sonar míns er látinn.  Hann dó i fyrrinótt,  féll fyrir eigin hendi.  Hann var í rauninni fyrsti vinur sonar míns, þeirra vinátta hófst þegar þeir voru aðeins fjögurra ára. Þá bjuggum við í sömu götu og þeir urðu strax nánast óaðskiljanlegir og okkar heimili varð hans annað heimili og þannig var það næstu 7 til 8 árin. Þá fluttu báðar fjölskyldurnar og báðir skiptu um skóla þá samt hélt vinátta þeirra áfram og þrátt fyrir að þeir hafi farið sitthvora leiðina og samverustundirnar hafi verið færri en áður síðustu 10 árin þá var væntumþykjan alltaf til staðar og við mamma hans höfum alltaf fylgst með og haldið kunningsskap í gegnum árin.

Ég hef ekki ennþá mannað mig upp í að fara til hennar eftir þetta því það verða þung og erfið spor. Hvað getur maður sagt við móður í svona aðstæðum ?  Ekki neitt held ég engin orð geta sefað þá sorg sem foreldrar hans og systir upplifa núna og allar þær erfiðu tilfinningar sem fylgja í kjölfar svona voða atburðar. Ég held það sé vonlaust að gera sér í hugarlund  eða setja sig í þeirra spor það getur enginn sem ekki hefur upplifað slíkt sjálfur.  Sennilega verður faðmlag að duga og góðar bænir í kjölfarið. Hugur okkar hér er með fjölskyldu hans sem og enn með með fjölskyldu fyrra vinarins.  Ég veit og finn hvað góður hugur og bænir ykkar bloggvina minna hafa hjálpað og því bið ég ykkur að senda foreldrum og systur þessa unga manns bænir og ljós.

Hér með læt ég þessari færslu lokið og reyni svo að leggja mig um stund, megi dagurinn verða ykkur góður og vona að gæfuhjól okkar allra fari nú að snúast, ef ég man rétt þá hefst nýtt ár í dag samkvæmt Kínversku tímatali árið 4707 og mun það vera ár Tígursins og þar sem kötturinn er mitt uppáhaldsdýr þá hlýtur árið að verða vænlegra og kannski hentar það tímatal okkur bara betur....??????


Myrkraverk í miðbænum

Vikurnar fljúga áfram og daginn er farið að lengja og baráttan við steinrunnar stofnanir og ryðgað regluverk er rétt hafin svo ekki sé minnst á lagaflækjur lögmanna og lög sem ættu að vera löngu úrelt og eru auk þess svo hriplek að þau halda ekki vindi hvað þá vatni. Nú er stefnan að sækja um að fá gjafsókn í máli sonarins gegn eiganda húsnæðisins það myndi auðvelda málsóknina og sennilega líka liðka fyrir því að fá hæfan lögfræðing í málið vegna þess að lögin eru svo loðin að rannsóknarlögregluþjónn sem kom að málinu (sá sem ráðlagði okkur að fá okkur lögmann strax) sagði okkur að það væri mjög áríðandi að fá lögmann sem hefði mikla reynslu af bótamálum sem þessum og þeir væru ekki mjög margir sem hefðu eitthvað að gera í erfið mál af þessum toga.

Það er eitt mál varðandi brunann sem er að veltast um í huga mér og þar erum við bóndinn ekki alveg á sömu blaðsíðunni með og því velti ég þessum vangaveltum mínum yfir til ykkar.

Eins og þið munið þá bjargaðist sonur minn við illan leik og þeir 2 lögregluþjónar sem björguðu honum unnu mikið þrekvirki og auðvita eiga þeir alla mína virðingu og þakkir en það sem ég er ekki sátt við er að eftir að honum var bjargað (nánast um leið og bruninn var tilkynntur kl 04.15 lögreglan kom á staðinn ca 3. mínútum seinna) var hann settur inn í lögreglubíl (sem var o.k. því enginn sjúkrabíll var þá kominn á svæðið) enda var hann í miklu uppnámi og reiður bæði vegna þess að hann vildi ekki fara úr húsinu án vinarins og var hindraður í að fara aftur inn og líka yfir því að lögreglan skyldi ekki reyna að fara aftur inn í húsið til að bjarga vini hans.  Síðan þegar sjúkrabíll var kominn á svæðið þá var sonurinn spurður hvort það væri allt í lagi með hann, og jánkaði hann því og vildi bara helst komast burt og í staðinn fyrir að fara með hann beint upp á spítala og athuga t.d. súrefni með tillit til reykeitrunar auk annarra rannsókna fyrir utan það að auðvita átti hann líka að fá áfallahjálp og aðhlynningu en nei þá var farið með hann beint á lögreglustöðina þar sem hann var í tveggja klst. skýrslutöku sem mér þykir alveg fyrir neðan allar hellur enda strákur ekki í neinu ástandi til að sitja undir erfiðri yfirheyrslu gjörsamlega bugaður og fárveikur.

Það var svo kl. rúmlega hálf sex sem hringt var í okkur og var það sonurinn sem varla gat talað vegna örvinglunar og því tók lögreglumaður við símanum og sagði okkur lítillega frá því sem hafði gerst og í framhaldi af því bað hann okkur um að sækja strákinn sem pabbi hans svo og gerði og kom með hann heim til okkar. Ég sá strax að strákur var bæði alveg fárveikur og andlega ástandið líka alveg skelfilegt. Það þurfti ekki nema að horfa á andlitið á honum til að sjá að hann var kominn með bullandi reykeitrun hann var allur rauður og þrútinn bæði kringum öndunarfæri og augu og auk þess ælandi lungum og lifur og því var það fyrsta sem ég gerði var að koma honum beint upp á slysamóttöku þar sem fagfólk tók einstaklega vel á móti honum og þar var allt til fyrirmyndar nema starfsmenn þar voru afar undrandi á því að ekki hafi verið komið með hann strax eftir björgunina. Þar skilur líka á milli okkar foreldranna mér finnst að þarna hafi verið gerð mistök og vil fá svör en bóndanum finnst að við stöndum í svo mikilli þakkarskuld við þá sem björguðu honum að við eigum bara að láta kyrrt liggja.

Það sem í fyrsta lagi vakir fyrir mér er að það hefði engum átt að dyljast að hann var með hættulega mikla reykeitrun og því hefði átt að hefja súrefnisgjöf strax og eftir því sem mér hefur verið tjáð þá geta eftirköst reykeitrunar komið fram löngu, löngu seinna og valdið til lengdar miklum skaða á öndunarfærum, valdið miklum höfuðkvölum, og jafnvel geti orðið persónubreytingar auk ýmiskonar öðrum skaða sem kemur sem fyrr segir,  ekki fram fyrr en kannski löngu seinna. 

Í öðru lagi þá vil ég tryggja að svona nokkuð hendi sig ekki aftur og að í tilvikum sem þessum verði línurnar skýrar varðandi fyrstu viðbrögð í svona tilfellum, einhver sagði mér að það mætti ekki fara með mann á slysamóttöku nema viðkomandi vildi það sjálfur en mér finnst það léleg rök vegna þess að viðkomandi er ekki sjálfur í ástandi til að meta það hvort hann þurfi á læknis eða áfallahjálp fyrir utan það þá virðist vera í lagi að fara með viðkomandi á lögreglustöð í rúmlega tveggja tíma skýrslutöku við svona aðstæður, hvað finnst ykkur um þetta atriði ?

Síðan eru það fjölmiðlarnir mér finnst fyrir neðan allar hellur hlutur fjölmiðla í málinu, en ég læt það bíða til morguns og læt þessu lokið hér í dag, og megi allar góðar vættir blessa ykkur daginn. 

 

   

 


ÁBABA.,,,.

Hvernig leggst svo þetta nýja ár í ykkur ?? Ég get ekki sagt að það leggist vel mig . Á þessum fyrsta mánuði hafa nú þegar orðið 3 verulega slæmir atburðir átt sér stað innan fjölskyldunnar. Fyrst var það bruninn síðan slasaðist ungur frændi minn um borð á sjó þegar hann féll niður í lest með þeim afleiðingum að hann hálsbrotnaði og lamaðist mjög mikið en ekki er vitað að svo stöddu nákvæmlega hversu mikið og síðan er ung kona á gjörgæsludeild sem hreinlega gafst upp svo að bænaefnin eru mörg. 

Þá eru nú  blessuð þjóðmálin hvaða nafni sem þau nú nefnast ekki til að blása manni bjartsýni í brjóst  Stjórnarliðar flögra um eins og höfuðlausar hænur, sífellt meiri viðbjóður kemur upp á yfirborðið, jafnvel enn meiri en nokkurn hafi órað fyrir. Þúsundir heimila eru á leið í gjaldþrot og enn fleiri fyrirtæki eru á sömu leið.

 Því miður er erfitt að finna eitthvað jákvætt í þeim málum nema það þá helst að loksins er farið að handtaka menn, leggja fram kærur, ásamt húsleitum sem gefur manni smá von um að einhverjir af þeim glæpamönnum sem komu landinu okkar í þrot verði látnir svara til saka og allar þeirra eigur verði hundeltar og grafnar upp þannig að sem mest náist upp í skuldir þær sem þjóðinni er ætlað að borga fyrir með blóði sínu og svita á meðan þeir sjálfir spóka sig á sólarströndum, og skemmtisnekkjum í einhverjum skatta paradísum sem maður kann ekki einu sinna að nefna hvað þá meira.

Síðan að allt öðru, ég fer ekki oft í verslanir og enn sjaldnar í stórar verslunarmiðstöðvar á borð við Kringluna og Smáralindina og þá fyrrnefndu allra síst.  En fyrir jól fór ég að vísu í þær báðar aðallega til að skoða og spá í verð sem mér fundust nú alveg út úr kortinu fyrir utan kannski  örfáar undantekningar. Ég verslaði nú ekki mikið heldur eins og ég sagði hér að ofan aðallega að spekúlera verðin því ég reyni yfirleitt að fresta fatakaupum  fram að útsölum og ætlaði að gera slíkt hið sama núna, svo ég skellti mér í Kringluna (enda með gjafakort þar) og ætlaði mér að gera kostakaup þar.

En viti menn verðin höfðu í rauninni ekkert lækkað og í tvígang rak ég mig á flíkur sem var búið að breyta verðinu á sem sagt það var búið að hækka verðið og síðan gefinn 40% afsláttur og þá kostaði sú flík 230 kr meira en fyrir útsölu, þetta er sjálfsagt löglegt en er samt afar siðlaust finnst mér.

Það er nú varla hægt að ljúka þessari færslu hjá mér án þess að nefna STRÁKANA OKKAR í Vín. Þvílík frammistað hjá þessum strákum komnir á verðlaunapall BRONSIÐ Í HÖFN. Árangur þeirra hefur lyft upp huga og hjörtum þjóðarinnar og leikur þeirra fært ljós og von á annars erfiðum tímum  þeir eru landi og þjóð til sóma og standa sig frábærlega vel og minna bæði okkur sjálf og aðrar þjóðir á hversu stórkostlegt fólk byggir þetta land, og þrátt fyrir allt það mótlæti sem yfir okkur dynur, þá slær hjarta okkar í takt og ég veit í hjarta mér að ef við stöndum saman þá getur ekkert grandað okkur hvorki icesave, óprúttnir útrásarvíkingar, gírugar fyrrum nýlenduþjóðir, AGS, ESB né gjörspilltir stjórnmálamenn.

En til þess að við getum orðið sú þjóð sem ég veit að býr í hjarta okkar og að lifa því lífi sem þorri okkar þráir, þá þarf að stokka upp allt kerfið hérna og ég sé nú eiginlega enga aðra leið en að við tökum sjálf málin í okkar hendur með því hreinlega að gera byltingu og fá hag o.e. þjóðstjórn til valda. Tökum okkur til fyrirmyndar strákana okkar og stöndum saman, við höfum öll einhverja hæfileika og spilum mismunandi stöður á vellinum og bætum þannig hvort annað upp eins og einhver sagði svo réttilega ,, we might not have all together, but together we have it all,,

Megi nýbyrjuð vika verða okkur öllum til heilla og hamingju, mínir elskulegu landar

 


Baráttan varðandi afleiðingar brunans er nú rétt bara að byrja.....

Kæru vinir, nú hefur mikið vatn runnið til sjávar frá því ég kom að tölvunni minni síðast þar sem strákurinn minn hefur  haft hana að láni frá því að hans brann en bóndinn er að reyna að tjasla saman gamalli tölvu sem vonandi kemur til með að virka og vonandi sem allra fyrst.

 Nú virðist sonurinn vera að ná sér líkamlega séð þó að vísu með formerkjum þar sem afleiðingar reykeitrunar geta víst verið að koma fram löngu eftir á. Hvað varðar andlegu heilsuna er ennnþá á brattann að sækja og svo sem engin leið auðveld eða góð í  sjálfu sér, sérstaklega ekki þegar viðkomandi er ekki móttækilegur fyrir henni.

 Kistulagningin var öllum afar erfið, kistan var lokuð sem betur fer (tel ég) þar sem Kristinn var illa brunninn og slík hinsta minning  yrði engum holl.  Jarðaförin var einstaklega falleg vinirnir báru kistuna, Friðrik Ómar söng óaðfinnanlega nokkrar fallegustu perlur okkar tíma, vinirnir báru hann hinsta spölinn og stóðu sig vel þrátt fyrir allt og við vorum(erum)afar þakklát foreldrum Kristins þeim Ara og Línu hvað þau lögðu mikið upp úr að gera vinina virka í öllum undirbúningi og athöfnum, en það var strákunum mjög mikils virði og þeim náttúrlega líka.

Það eru margbreytilegar tilfinningar sem bærast með manni við svona aðstæður. Maður er þakklátur, reiður, undrandi, hryggur, sár, máttvana, ringlaður auk þess að finna fyrir samviskubiti yfir því að hafa verið foreldrarnir sem fengu barnið sitt heim en ekki hinir sem misstu það og einhvern veginn finnst mér hálf óþægilegt þegar fólk segir við okkur mikið rosalega voruð þið heppin því að í huga mínum hefur það ekkert með heppni að gera að heimta barnið sitt úr helju. 

En nú tekur við glíma við lögfræðinga, leigusala, tryggingar og eftirlitsstofnanir sem verður ekki auðveld og raunar erum við ekki ennþá búin að finna lögmann sem er tilbúinn í slaginn með okkur og í rauninni vitum við ekki hvort við höfum eitthvað mál sem hægt er að reka en ég er samt vongóð og vil allt til vinna að vona nokkuð endurtaki sig ekki .

En ég læt staðar numið í dag en mun leyfa ykkur að fylgjast með (eða þau ykkur sem vilja) þessu máli hér á blogginu mínu.

Guð gefi ykkur öllum góðan  og gæfuríkan dag


Glæpsamlegar dauðagildrur, allt eftirlit hefur gjörsamlega brugðist

Eins og þið hafið sjálfsagt öll séð í fréttum varð hörmulegur eldsvoði í gömlu húsi (105 ára) á  Hverfisgötu 28 aðfaranótt 7. þ.m. Þar uppi í risi bjuggu 2 ungir menn (25 ára) annar þeirra dó í brunanum en hinum var bjargað á ögurstundu við illan leik og mátti ekki muna mínútu að eins færi fyrir honum og var það einungis fyrir vasklega og hetjulega framgöngu lögreglumannanna sem komu fyrstir á staðinn.

 Hér með langar mig að votta þessum mönnum virðingu mína og ég verð þeim að eilífu þakklát og mikið meir en orð fá lýst af öllu mínu hjarta.

 En ég er líka reiðari en orð fá lýst í garð þeirra eftirlitsstofnana sem gjörsamlega hafa brugðist skyldum sínum, í fyrsta lagi þá nefni ég eldvarnareftirlitið, rafmagnseftirlitið og auk þess eiganda hússins. Allt þetta lið skal fá að svara til saka fyrir þetta hörmulega slys sem hefði verið auðvelt að komast hjá ef þessir aðilar hefðu sinnt skyldum sínum.

Í fyrsta lagi var enginn neyðarútgangur, enginn brunastigi ekki einu sinni kaðlar eð eitt eða neitt þannig að vonlaust var fyrir þá sem bjuggu í risinu að komast út nema fara niður þennan eina stiga sem er bæði þröngur og lokaður, í öðru lagi þá voru engar eldvarnir í húsinu hvorki inní íbúðunum né í stigagangi hvorki slökkvitæki né reykskynjari, sem lýsir því best hvað eiganda hússins stóð/stendur gjörsamlega á sama um leigjendur sína enda lítur hann eingöngu á þá sem tekjulind sína. Ef leigan er greidd er hann saddur og sáttur.

Fyrir mér er hann bara hvítflibba glæpamaður sem hefur hvorki talað við angistarfulla foreldra þess unga manns sem fórst né þann sem lifði og meira að segja þegar reynt var að hafa samband við hann eftir brunann þá var hann upptekinn á hvítflibbafundi og ekkert hefur heyrst frá honum enn.

Eftir því sem ég kemst næst er að hann eigi margar húseignir bæði við Hverfisgötuna og þar í kring og eftir því sem mér er tjáð þá hafa fleiri hús í hans eigu brunnið, þó svo það hafi ekki fyrr orðið mannsbani þar. Flestar þessar íbúðir eru leigðar ungu fólki og útlendingum sem gera litlar sem engar kröfur og eru ekki að velta sér uppúr því hvort öryggi eða annað sé í lagi, því eins og við munum sjálfsagt að þá fannst manni maður ódauðlegur á þessum árum.

Allt rafmagn í húsinu er fúsk af verstu gerð enda kviknaði í út frá því enda enginn lekaleiðari til að slá út rafmagninu eins og vera ber.

Því bið ég ykkur öll sem lesa þetta að styðja mig/okkur til að þrýsta á viðkomandi stofnanir og borgaryfirvöld að taka sig á og fara að sinna skyldum sínum, eins biðla ég til fjölmiðla sem vonandi taka málið upp á sínum miðlum og beiti þrýstingi, krefjast svara og úrbóta, og vonandi mun það duga til að fyrirbyggja að svona endurtaki sig aldrei framar.  

En fyrir þessa tvo drengi er það of seint og ég get aðeins ímyndað mér þá kvöl sem foreldrar og fjölskylda þess sem lést upplifa núna og eiga þau öll mína dýpstu samúð.

Sonur minn er hinn drengurinn sá sem bjargaðist við illan leik, hann hlaut slæma reykeitrun og þarf áframhaldandi meðhöndlun vegna þess en flest bendir samt til þess að hann muni ná sér líkamlega séð. En hin andlega kvöl er þvílík að ég sem móðir hans er gjörsamlega bjarglaus og vanmáttug. Ég get ekki gert mér í hugarlund hvernig það er að missa barnið sitt, ég held að það versta sem nokkurt foreldri þarf að takast á við, en sennilega er það næst erfiðast að horfa upp á kvöl barnsins þíns án þess að geta gert neitt til að lina hana og þegar svona er þá sér maður best hvað peningar og eignir skipta litlu í rauninni og þó sonur minn hafi misst aleiguna að þá er það léttvægt í samanburði við allt annað, kannski fyrir utan hluti eins og albúm og myndir.

Ég læt þessu lokið núna en mun að örugglega fjalla meira um þetta hérna á blogginu aftur og enn bið ég þau ykkur sem vilja eða geta hjálpað við að mynda þrýsting af einhverju tagi þar sem ég veit ekki alveg hvað skal gera næst.

Ykkar einlæg Hulda 


Hugrekki og dugnaður Ólafs..

Heil og sæl allir mínir vinir á blogginu og allir sem þetta lesa. Ég óska ykkur gleðilegs árs og friðar á nyju ári og megi gæfa okkar sem þjóð verða okkur hliðholl og heillarík.

Mig langaði nú bara að lýsa yfir ánægju og bara hreinlega aðdáun á forseta okkar Ólafi R. Grímssyni, Ég hélt að ég myndi aldrei segja þessi orð um hann, en hann á alla mína virðingu og ekki bara vegna þess að hann skrifaði ekki undir ólögin heldur hvernig hann er búin að standa sig í viðtölum erlendis og loksins eru raddir hins almenna borgara farnar að fá hljómgrunn í erlendum fjölmiðlum. 


Blessuð jól um

Heil og sæl öllsömul, Þá eru nú blessuð jólin að mestu búin og vona að þið hafið öll átt ánægjulega og kærleiksríka hátíð með fjölskyldu o.e. annarra ástvina. Því miður hef ég ekki komið að bloggsíðunni minni síðan þann 21 des. þar sem ég náði mér í svo slæma sýkingu í augun þannig að ég er búin að vera nánast blind yfir jólin, en nú horfir það til hins betra í orðsins fyllstu merkingu.

Svona á síðasta degi þessa árs er mér vissulega efst í huga umræður og afgreiðsla hins há Alþingi í gær og ef satt skal segja er ég alveg miður mín, þau vinnubrögð sem þar eru viðhöfð eru fyrir neðan allar hellur. Nú er mín eina von sú að forseti okkar neiti að skrifa undir þennan svika og nauðungasamning sem um ræðir þó ég sé nú hóflega bjartsýn á að Ólafur muni neita þá er það mín helsta bæn fyrir mina þjóð.

Að vísu langar mig nú að minnast á eina erlenda frétt sem var rétt  fyrir jól,og það var ránið á skilti sem var í útrýmingarbúðum þjóðverja í síðari heimstyrjöldinni, það kom ekki fram hvort vitað væri hverjir hafi verið þar á ferð, en það sem mér fannst nú algerlega fráleitt og það voru viðbrögð Ísraela, þar sem þeir sögðust líta á þetta sem stríðsyfirlýsingu  ?? stríð gegn hverjum mér er spurn ?? það læddist nú að mér spurning hvort þeir hafi sjálfir staðið fyrir þessum stuldi til að afla sér smúðar eða til að þeir geti réttlætt sinn málstað og þeirra framkomu og glæpi gagnvart Palestínumönnum ??

Síðan langar mig að senda hlýjar kveðjur öllum þeim sem eiga um sárt að binda,sem og til ykkar allra að nýtt ár muni færa gæfu, gleði, gengi og góða heilsu.

Vonandi verð ég svo ötulli hérna á blogginu á nýju ári 


Er Bakkus jólalegur ???

Jæja þá er maður risinn upp á enn á ný.                                                                                      Ég verð nú bara að segja að ég hef saknað ykkar vinanna hér á blogginu enda margt búið að koma uppá í þjóðfélaginu frá því ég var hér síðast og eiginlega alltof margt því ef ég ætlaði mér að tjá mig um allt það sem ég myndi vilja þá yrði það nú sennilega í.þ.m. fjórðungur af einni jólabók eða svo, en ég hlífi ykkur nú við þeim ósköpum og tek bara lítið eitt í einu.

 Ég veit ekki betur en að það sé bannað að auglýsa áfengi en er það virkilega svo ?? eða er búið að fella það úr gildi ??

Það hlýtur bara að vera því það eru allir fjölmiðlar að auglýsa áfengi á einn eða annan hátt og meira að segja eru verðkannanir á áfengi eins svo t.d. var fyrir verslunarmannahelgina s.l. sumar þá voru birtar kannanir á bragði og verði á bjór, hvaða bjór væri ódýrastur og bestur flokkast það ekki sem auglýsing ?? Nú um daginn í fréttatengdum þætti á stöð 2 var verið að verðlauna besta jólabjórinn og svo var klikkt út með því að segja ,,hvað er jólalegra en áfengi ,, Ég er enginn bindindismaður en mér finnst nákvæmlega ekkert jólalegt við áfengi en hins vegar veit ég um marga sem virkilega kvíða þessari hátíð vegna áfengisdrykkju foreldra, maka, eða barna sinna. 

Þegar vinkona dóttur minnar var 17ára (fyrir nokkrum árum  síðan)sagði hún mér frá því að frá því hún mundi fyrst eftir sér, að þá hafi mamma hennar aldrei náð því að sitja borðhald til enda á aðfangadagskvöld og hvað þá að opna pakkana með þeim, hún var alltaf sofnuð áfengisdauða áður. 

ÉG veit því miður að þetta er ekkert eindæmi og því er ég að pára þetta því mér finnst alveg forkastanlegt að tengja saman áfengi og jól og mér finnst nú nægilega margt sem blessuð börnin í þessu brotna þjóðfélagi okkar þurfa að glíma við svo ekki sé nú bætandi gráu ofan í svart og eigi ekki að þurfa að bæta á sig enn meira álagi vegna áfengisneyslu inni á heimilinu og meðal ástvina.

Læt nú staðar numið í bili og og óska ykkur öllum heilla og hamingju um alla ókomna tíð og gaman væri að heyra hug ykkar um þetta mál.


Hver er forgangsröð þjóðarinnar, ég bara spyr í forundran

Ekki fyrir löngu síðan skrifaði ég pistil varðandi forgangsröð Jóhönnu Sig og hennar stjórn en nú spyr ég hvað er eiginlega í gangi í höfðinu hjá þjóðinni hver er forgangsröð þjóðarinnar ??

Þegar maður les bloggin og hlustar á fólk almennt þá eru þjóðmálin efst í huga flestra og þau rædd af mikilli tilfinningu og á flestum kaffistofum, eldhúsum og öllum öðrum þeim stöðum sem fólk kemur saman lætur fólk móðan mása og flestir eru bæði reiðir og svekktir og finnst það bæði svívirt og gjörsamlega misboðið (réttilega) en þar lætur fólk við sitja og ætla svo öðrum að gera eitthvað i málinu ekki ósvipað og í sögunni Litlu Gulu Hænunni eins og einn bloggvinur minn vitnaði í um daginn.

Hvenær í ósköpunum ætlar mín blessaða þjóð að læra það að ekkert fæst baráttulaust í henni veröld og hvenær ætlar mín þjóð að læra að standa saman og styðja hvert annað og ýta til hliðar hugsuninni ég um mig frá mér til mín, hætta að hugsa á þann hátt að þó það gangi ágætlega hjá mér þá þarf að sýna hinum sem ekki gengur eins vel stuðning og hjálp.

Það sem ég ætlaði nú að koma á framfæri var varðandi mótmælin á laugardaginn var,  það mættu örfáar hræður, ég veit ekki hversu mörg við vorum en það hefur í besta falli verið 200 manns en ég efast nú samt um að það hafi verið það margir.

Á sama tíma voru allar verslunarmiðstöðvar fullar út úr dyrum og eftir því sem mér var tjáð þá er jólasalan góð og ekkert slegið af í verslun enda kvarta kaupmenn ekki.

Þetta er svo gjörsamlega ofar mínum skilningi, þjóðin virðist bera hag kaupmanna sem eru að stærstum hluta í eigu útrásarvíkinganna (sem bera stærstu sök á því hvernig komið er) fyrir brjósti umfram hag barna sinna og allra hinna sem þurfa að axla ábyrgð á gjörðum þessara manna.

Kannski eigum við þetta bara skilið, allavega þá held ég því miður að þetta komi til með að ýta undir það að ennþá fleiri muni gefast upp og flytja úr landi.

Svo elsku vinir endurskoðið forgangsröðina og reynum að standa saman, hugsum um hvar við viljum versla og gefum góðan hug, náungakærleik, og deilum gæðastundum með öllum þeim sem okkur eru kærir (þó við þekkjum þá ekki) og verum hógvær í innkaupum.

Megi allar góðar vættir fylgja ykkur inn í nýja viku og munið að bros eða hlýtt handtak getur breytt deginum hjá einhverjum og auðgað hann hjá þér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband