28.4.2010 | 01:15
Sársauki, Hryggð vegna Ógnarvalda náttúruaflanna og sorg vegna Bakkusar
Einhvern veginn er það greypt í huga mér minning frá því ég var 7 eða 8 ára. Þá voru stjúp afi og amma heima í sveitinni að hætta með allan búskap og gerðu það smátt og smátt, blessaðar kýrnar sem höfðu nú aldrei verið margar á okkar bæ aldrei fleiri en 7 ef ég man rétt, en þær höfðu samt alltaf verið afa hugleiknar og kannski einmitt þess vegna er þessi minning svona sterk í mínum huga.
Þegar þetta var þá hafði afi selt síðustu mjólkurkúna hana Skjöldu og menn voru komnir á stórum yfirbyggðum trukki til þess að ná í hana og flytja til nýrra heimkynna. Þetta var afa alveg sérlega erfitt enda þótti honum svo innilega vænt um dýrin sín og þegar hann kvaddi þessa síðustu kú þá grét hann og var afar hryggur.
Síðan þegar riðuveiki kom upp á mörgum bæjum þá þurftu margir bændur að skera niður og kveðja bústofn sem hafði verið ævistarf 3ja kynstofna að rækta upp.
Þessar minningar streyma fram hjá mér nú þegar margir bændur standa frammi fyrir því að geta ekki bjargað öllum eða að hluta af bústofni sínum og þurfa jafnvel að bregða búi og yfirgefa heimili sín (þar sem sumir hafa jafnvel búið alla sína ævi)og skilja eftir verðmætar húseignir um óljósan tíma sem allt eins gæti verið til frambúðar.
Ég er alls ekki að gera lítið úr erfiðleikum annarra heimila í landinu (sem vissulega eru mikil) en þetta fólk sem hefur ræktað upp landið í þágu allra Ísl. og hefur séð okkur fyrir best fáanlegu matvælum í heimi.
Nú þarf þetta mæta fólk á okkar hjálp að halda til að blása þeim í brjóst kjarki og bjartsýni og láta það finna að okkur stendur ekki á sama um afdrif þeirra.
Því bið ég ykkur kæru vinir að hugsa hlýlega og af þakklæti til þessa fólks og minnast þeirra í bænum ykkar. Þó svo við séum blönk, og eigum sjálf um sárt að binda þá höfum við öll efni á að sýna vinarþel og hlýhug.
Eins langar mig að biðja ykkur þess sama fyrir hamri slegnar fjölskyldur sem vegna Bakkusar lentu í hörmulegu slysi.
Athugasemdir
Hafðu þökk fyrir sönn orð Hulda.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 28.4.2010 kl. 06:59
Ég ætla rétt að vona að hugur allra sem hugsandi eru sé hjá þessu fólki.Það þarf á því að halda.
Páll Eyþór Jóhannsson, 28.4.2010 kl. 07:27
Orð að sönnu Hulda.Þeir fj...árar Mammon og Bakkus leika þjóðina grátt.Því fylgir harmur og hryggð,sem enginn fær staðist til lengdar,sem verður að keðjuverkandi aðgerðum,skapar frekari hryggð hjá þeim sem þeim standa, foreldrum og öðrum nánustu.
Hvað er það,sem veldur því,að ungur maður drekkur stíflueyðir,og velur með því kvalafullan dauðdaga.(Ath.Maðurinn er að vísu ekki dáinn).En það breytir ekki því,að það eitthvað mikið að.Atvik,sem var skýrt frá í fréttum,hefur leitt manninn á þennan möguleika til taka sitt líf.
Hugur og samúð,færi ég öllum,sem á sárt að binda,þeir eru miður ófáir.
Ingvi Rúnar Einarsson, 28.4.2010 kl. 09:55
Sammála þér, það er sorglegra en tárum taki að þurfa að láta dýrin sín frá sér, eða fylgjast með þeim líða illa, hafa áhyggjur af velferð þeirra. Hugsa oft til þessa blessaða fólks. Takk fyrir þessa hugvekju Hulda mín.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.4.2010 kl. 10:59
Algjörlega sammála þér elsku Hulda, þetta fólk á hug minn allan þessa dagana. Takk fyrir þetta
Ásdís Sigurðardóttir, 28.4.2010 kl. 13:02
Sammála þér Hulda. Margir eiga um sárt að binda vegna fráfalls tveggja stúlkna um síðustu helgi, fyrst og fremst af völdum Bakkusar. En mér verður oft hugsað til piltsins sem ók og var að því er sagt er drukkinn. Ég get ekki hugsað mér neitt skelfilegra fyrir ungan mann en að verða valdur að dauða vina sinna, en sleppa sjálfur lítt skaddaður úr þeim hildarleik. Alla sína ævi mun hann minnast atviksins með skelfingu. Hann mun óhjákvæmilega hljóta dóm sem lög kveða á um í slíkum tilvikum. Við almenningur, sem förum ekki með dómsvald í landinu, skulum hins vegar hugsa til þessa unga manns með hlýhug en ekki fordæmingu, ekki veitir honum af á þessum tíma. Ekki er samt hægt að mæla athæfi hans bót, en það er allt annað mál.
Magnús Óskar Ingvarsson, 28.4.2010 kl. 18:41
Mikið sammála þessu Hulda bloggvinkona/Kveðja og góðar óskir/Halli gamli
Haraldur Haraldsson, 28.4.2010 kl. 21:40
Ómar og Páll, þakka góðar undirtektir
Hulda Haraldsdóttir, 29.4.2010 kl. 04:26
Mikið rétt kæri Ingvi, Mammon og Bakkus eru hörmulegir ferðafélagar sem því miður margir kjósa samt að ferðast með, þakka innlegg þitt
Hulda Haraldsdóttir, 29.4.2010 kl. 04:45
Ásthildur mín kær, takk sömuleiðis bestu þakkir allt
Hulda Haraldsdóttir, 29.4.2010 kl. 05:13
Sömuleiðis elsku Ásdís þakka þér ævinlega hlýhuginn og innleggið
Hulda Haraldsdóttir, 29.4.2010 kl. 05:14
Minn kæri Magnús tek heilshugar undir allt sem þú segir og einmitt þess vegna orðaði ég þetta svona ,,fyrir harmi slegnar fjölskyldur,, og vissulega líka í þessu tilfelli bæði þennan ólánslega dreng sem vegna Bakkusar tók ranga ákvörðun sem hann geldur fyrir allt sitt líf eins og þú bentir réttilega á hér að ofan og síðast en ekki síst fjölskyldu þessa drengs sem horfir fram á lífstíðardóm barns síns. Þakka þér hjartanlega þitt góða innlegg
Hulda Haraldsdóttir, 29.4.2010 kl. 05:27
Þakka þér fyrir góðan pistil, Hulda. Ég er þér hjartanlega sammála. Þeir kumpánar, Mammon og Bakkus, eru án efa verstu ferðafélagar á lífsins leið sem hugsast getur; ágirnd, lygi og annar óheiðarleiki eru þeirra aðalsmerki.
Setjum okkur fyrir hugskotssjónir þjóðfélag sem væri laust við þessa hættulegu kalla.
Jóhannes Ragnarsson, 29.4.2010 kl. 10:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.