10.2.2010 | 06:10
Myrkraverk í miðbænum
Vikurnar fljúga áfram og daginn er farið að lengja og baráttan við steinrunnar stofnanir og ryðgað regluverk er rétt hafin svo ekki sé minnst á lagaflækjur lögmanna og lög sem ættu að vera löngu úrelt og eru auk þess svo hriplek að þau halda ekki vindi hvað þá vatni. Nú er stefnan að sækja um að fá gjafsókn í máli sonarins gegn eiganda húsnæðisins það myndi auðvelda málsóknina og sennilega líka liðka fyrir því að fá hæfan lögfræðing í málið vegna þess að lögin eru svo loðin að rannsóknarlögregluþjónn sem kom að málinu (sá sem ráðlagði okkur að fá okkur lögmann strax) sagði okkur að það væri mjög áríðandi að fá lögmann sem hefði mikla reynslu af bótamálum sem þessum og þeir væru ekki mjög margir sem hefðu eitthvað að gera í erfið mál af þessum toga.
Það er eitt mál varðandi brunann sem er að veltast um í huga mér og þar erum við bóndinn ekki alveg á sömu blaðsíðunni með og því velti ég þessum vangaveltum mínum yfir til ykkar.
Eins og þið munið þá bjargaðist sonur minn við illan leik og þeir 2 lögregluþjónar sem björguðu honum unnu mikið þrekvirki og auðvita eiga þeir alla mína virðingu og þakkir en það sem ég er ekki sátt við er að eftir að honum var bjargað (nánast um leið og bruninn var tilkynntur kl 04.15 lögreglan kom á staðinn ca 3. mínútum seinna) var hann settur inn í lögreglubíl (sem var o.k. því enginn sjúkrabíll var þá kominn á svæðið) enda var hann í miklu uppnámi og reiður bæði vegna þess að hann vildi ekki fara úr húsinu án vinarins og var hindraður í að fara aftur inn og líka yfir því að lögreglan skyldi ekki reyna að fara aftur inn í húsið til að bjarga vini hans. Síðan þegar sjúkrabíll var kominn á svæðið þá var sonurinn spurður hvort það væri allt í lagi með hann, og jánkaði hann því og vildi bara helst komast burt og í staðinn fyrir að fara með hann beint upp á spítala og athuga t.d. súrefni með tillit til reykeitrunar auk annarra rannsókna fyrir utan það að auðvita átti hann líka að fá áfallahjálp og aðhlynningu en nei þá var farið með hann beint á lögreglustöðina þar sem hann var í tveggja klst. skýrslutöku sem mér þykir alveg fyrir neðan allar hellur enda strákur ekki í neinu ástandi til að sitja undir erfiðri yfirheyrslu gjörsamlega bugaður og fárveikur.
Það var svo kl. rúmlega hálf sex sem hringt var í okkur og var það sonurinn sem varla gat talað vegna örvinglunar og því tók lögreglumaður við símanum og sagði okkur lítillega frá því sem hafði gerst og í framhaldi af því bað hann okkur um að sækja strákinn sem pabbi hans svo og gerði og kom með hann heim til okkar. Ég sá strax að strákur var bæði alveg fárveikur og andlega ástandið líka alveg skelfilegt. Það þurfti ekki nema að horfa á andlitið á honum til að sjá að hann var kominn með bullandi reykeitrun hann var allur rauður og þrútinn bæði kringum öndunarfæri og augu og auk þess ælandi lungum og lifur og því var það fyrsta sem ég gerði var að koma honum beint upp á slysamóttöku þar sem fagfólk tók einstaklega vel á móti honum og þar var allt til fyrirmyndar nema starfsmenn þar voru afar undrandi á því að ekki hafi verið komið með hann strax eftir björgunina. Þar skilur líka á milli okkar foreldranna mér finnst að þarna hafi verið gerð mistök og vil fá svör en bóndanum finnst að við stöndum í svo mikilli þakkarskuld við þá sem björguðu honum að við eigum bara að láta kyrrt liggja.
Það sem í fyrsta lagi vakir fyrir mér er að það hefði engum átt að dyljast að hann var með hættulega mikla reykeitrun og því hefði átt að hefja súrefnisgjöf strax og eftir því sem mér hefur verið tjáð þá geta eftirköst reykeitrunar komið fram löngu, löngu seinna og valdið til lengdar miklum skaða á öndunarfærum, valdið miklum höfuðkvölum, og jafnvel geti orðið persónubreytingar auk ýmiskonar öðrum skaða sem kemur sem fyrr segir, ekki fram fyrr en kannski löngu seinna.
Í öðru lagi þá vil ég tryggja að svona nokkuð hendi sig ekki aftur og að í tilvikum sem þessum verði línurnar skýrar varðandi fyrstu viðbrögð í svona tilfellum, einhver sagði mér að það mætti ekki fara með mann á slysamóttöku nema viðkomandi vildi það sjálfur en mér finnst það léleg rök vegna þess að viðkomandi er ekki sjálfur í ástandi til að meta það hvort hann þurfi á læknis eða áfallahjálp fyrir utan það þá virðist vera í lagi að fara með viðkomandi á lögreglustöð í rúmlega tveggja tíma skýrslutöku við svona aðstæður, hvað finnst ykkur um þetta atriði ?
Síðan eru það fjölmiðlarnir mér finnst fyrir neðan allar hellur hlutur fjölmiðla í málinu, en ég læt það bíða til morguns og læt þessu lokið hér í dag, og megi allar góðar vættir blessa ykkur daginn.
Athugasemdir
Fylgist með þér Hulda mín, gangi ykkur vel.
Ásdís Sigurðardóttir, 10.2.2010 kl. 13:54
Úff þetta ryfjar upp svo margt sem lögreglan gerði á hlut sonar míns. Það þarf sem sagt ekki fíkil til að lögreglan hegði sér eins og bavíanar. Það þarf bara að vera ung manneskja. Guð hvað ég verði reið.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 16.2.2010 kl. 18:05
Ásdís mín kær, þakka þér ævinlega hlýhuginn
Hulda Haraldsdóttir, 19.2.2010 kl. 14:11
Elskulega Ásthildur mín,´ekki er ég hissa á því að þú sért reið, framkoma lögreglunnar gagnvart syni þínum var á tíð og tímum hálf villimannsleg, eins og maður hefur skilið gegnum skrif þín.
Svo sannarlega er maður reiður, staðreyndin er sú að það er ekkert eins erfitt fyrir móðurhjartað (fyrir utan náttúrlega að missa barn) eins og þegar illa er vegið að börnunum okkar. Þakka þér allan hlýhuginn hann hjálpar mikið
Hulda Haraldsdóttir, 19.2.2010 kl. 14:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.