11.1.2010 | 20:27
Glæpsamlegar dauðagildrur, allt eftirlit hefur gjörsamlega brugðist
Eins og þið hafið sjálfsagt öll séð í fréttum varð hörmulegur eldsvoði í gömlu húsi (105 ára) á Hverfisgötu 28 aðfaranótt 7. þ.m. Þar uppi í risi bjuggu 2 ungir menn (25 ára) annar þeirra dó í brunanum en hinum var bjargað á ögurstundu við illan leik og mátti ekki muna mínútu að eins færi fyrir honum og var það einungis fyrir vasklega og hetjulega framgöngu lögreglumannanna sem komu fyrstir á staðinn.
Hér með langar mig að votta þessum mönnum virðingu mína og ég verð þeim að eilífu þakklát og mikið meir en orð fá lýst af öllu mínu hjarta.
En ég er líka reiðari en orð fá lýst í garð þeirra eftirlitsstofnana sem gjörsamlega hafa brugðist skyldum sínum, í fyrsta lagi þá nefni ég eldvarnareftirlitið, rafmagnseftirlitið og auk þess eiganda hússins. Allt þetta lið skal fá að svara til saka fyrir þetta hörmulega slys sem hefði verið auðvelt að komast hjá ef þessir aðilar hefðu sinnt skyldum sínum.
Í fyrsta lagi var enginn neyðarútgangur, enginn brunastigi ekki einu sinni kaðlar eð eitt eða neitt þannig að vonlaust var fyrir þá sem bjuggu í risinu að komast út nema fara niður þennan eina stiga sem er bæði þröngur og lokaður, í öðru lagi þá voru engar eldvarnir í húsinu hvorki inní íbúðunum né í stigagangi hvorki slökkvitæki né reykskynjari, sem lýsir því best hvað eiganda hússins stóð/stendur gjörsamlega á sama um leigjendur sína enda lítur hann eingöngu á þá sem tekjulind sína. Ef leigan er greidd er hann saddur og sáttur.
Fyrir mér er hann bara hvítflibba glæpamaður sem hefur hvorki talað við angistarfulla foreldra þess unga manns sem fórst né þann sem lifði og meira að segja þegar reynt var að hafa samband við hann eftir brunann þá var hann upptekinn á hvítflibbafundi og ekkert hefur heyrst frá honum enn.
Eftir því sem ég kemst næst er að hann eigi margar húseignir bæði við Hverfisgötuna og þar í kring og eftir því sem mér er tjáð þá hafa fleiri hús í hans eigu brunnið, þó svo það hafi ekki fyrr orðið mannsbani þar. Flestar þessar íbúðir eru leigðar ungu fólki og útlendingum sem gera litlar sem engar kröfur og eru ekki að velta sér uppúr því hvort öryggi eða annað sé í lagi, því eins og við munum sjálfsagt að þá fannst manni maður ódauðlegur á þessum árum.
Allt rafmagn í húsinu er fúsk af verstu gerð enda kviknaði í út frá því enda enginn lekaleiðari til að slá út rafmagninu eins og vera ber.
Því bið ég ykkur öll sem lesa þetta að styðja mig/okkur til að þrýsta á viðkomandi stofnanir og borgaryfirvöld að taka sig á og fara að sinna skyldum sínum, eins biðla ég til fjölmiðla sem vonandi taka málið upp á sínum miðlum og beiti þrýstingi, krefjast svara og úrbóta, og vonandi mun það duga til að fyrirbyggja að svona endurtaki sig aldrei framar.
En fyrir þessa tvo drengi er það of seint og ég get aðeins ímyndað mér þá kvöl sem foreldrar og fjölskylda þess sem lést upplifa núna og eiga þau öll mína dýpstu samúð.
Sonur minn er hinn drengurinn sá sem bjargaðist við illan leik, hann hlaut slæma reykeitrun og þarf áframhaldandi meðhöndlun vegna þess en flest bendir samt til þess að hann muni ná sér líkamlega séð. En hin andlega kvöl er þvílík að ég sem móðir hans er gjörsamlega bjarglaus og vanmáttug. Ég get ekki gert mér í hugarlund hvernig það er að missa barnið sitt, ég held að það versta sem nokkurt foreldri þarf að takast á við, en sennilega er það næst erfiðast að horfa upp á kvöl barnsins þíns án þess að geta gert neitt til að lina hana og þegar svona er þá sér maður best hvað peningar og eignir skipta litlu í rauninni og þó sonur minn hafi misst aleiguna að þá er það léttvægt í samanburði við allt annað, kannski fyrir utan hluti eins og albúm og myndir.
Ég læt þessu lokið núna en mun að örugglega fjalla meira um þetta hérna á blogginu aftur og enn bið ég þau ykkur sem vilja eða geta hjálpað við að mynda þrýsting af einhverju tagi þar sem ég veit ekki alveg hvað skal gera næst.
Ykkar einlæg Hulda
Athugasemdir
Þetta er ömulegt Hulda og ég skil bæði reiði þína og sorg. Þetta er náttúrulega erfitt að um leið og þú ert þakklát fyrir að sonur þinn bjargaðist, kemur sorgin yfir örlögum hins mansins.
Ég bý í Svíþjóð og hef ekki heyrt um þetta, en það hljóta að vera lög um leiguhúsnæði og ætti með rannsókn að vera hægt að finna orsökina og hver brást í ábyrgð. Ég veit að hér mundi viðkomandi verða dæmdur af dómstólum. Ég veit að á Íslandi er ekki tekið eins alvarlega á hlutunum. Ég man eftir strák sem lést eftir að heyvagn, sem hann fékk að sitja á, valt. Ókumaður traktorsins fékk ekki dóm, þetta var talið slys, þó að auðvitað var það ekki slys að stákurinn sat á heyvagninum þar sem lög banna farþega. Á Íslandi er svo auðvelt að flokka gáleysi undir slys og þar af leiðadi er gáleysið mikið. Ef fasteignaeigandi vissi að hann gæti lent í fangelsi fyrir manndráp þegar hann leigir ólöglegt húsnæði, þá eru meiri líkur tilað hann sinni skildum sínum.
Ásta Kristín Norrman, 12.1.2010 kl. 08:04
Elsku Hulda mín þetta er hræðilegt að heyra. Hvar get ég orðið þér að liði, ég skal skrifa undir áskorun eða láta í meir heyra um þetta. Ég hef hugsað til þessara tveggja manna sem fórust, vissi ekki að þeir hefðu verið svona ungir. En þetta er hræðilegt hvort sem er. Ég sendi þér mínar dýpstu samúðarkveðjur og svona menn þurfa að komast undir lás og slá. Þvílílkt kæruleysi. Votta hinum foreldrunum innilega samúð líka, enginn veit betur en ég hve sárt er að missa börnin sín á sviplegan hátt.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.1.2010 kl. 08:49
Sæl Hulda.
Já, þetta er hræðilegt að heyra ,og alltof algegnt að ekkert sé hugsað út í öryggisatriði í mörgum húsum eins og þú segir. Þarna Verður að gera eitthvað .
Geti ég orðið að liði, þá er é hér eins og þú veist. Svo vona ég að sonur þinn nái sér fullkomnlega .
Kærleikskveðja á þig og alla þína .
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 12.1.2010 kl. 10:16
Sæl Hulda.Slysin,gefa ekki boð á undan sér.En slys,sem má rekja til kæruleysi manna eru ekki fyrirgefanleg.Á síðustu árum hefur mikið af gömlum húsum á svæði 101 verið seld,fjárglæframönnum,sem hafa ætlað sér að rífa þau,og byggja einhverjar hallir.En niðurseiflan hefur orðið til þess,að ekki er talið farsælt að framkvæma.Þá er rokið í að hluta þau niður í litlar vistarverur og leigt dýru verði.
En eigendur eru ekki tilbúnir að tryggja öryggi leigutaka á nokkurn hátt,að vísu á þetta ekki einungis við fyrrnefnda svæðis,heldur mjög víða t.d.í húsum,sem er ætluð til alskonar fyrirtækjarekstur.Næstu hús er unnið með alkonar efni og tæki,sem brunahætta stafar að.Um leið og að fréttist af einhverju slíku,þá er ráðist í eitthvað til bráðbrygða,þar með látið afskiftalaust.
Alkonar nefndir og ráð eiga að vinna að þessum málum,og þá fleiri en eitt,sem á að sinna sama hlutverki,sem veldur því að eitt ráðið kennir hinu um,og öfugt.Staðreyndin er sú að hér er í mörgum tilfellum búin til störf,til að koma einhverjum venslamönnum að.En enginn veit,hvað svo á að gera,og gera því ekki neitt.Auðvitað á að fara fram á rannsókn,og sækja hlutaðeigana til ábyrgðar og krefja þá til sakargreiðslu,þó að sumt verður bætt.
En Hulda,mínar samúðarkveðjur færi ég aðstandendur hins látna.Einnig færi ég þér hluttekningu með soninn,um von að hann nái sér fljótt aftur.
Ingvi Rúnar Einarsson, 12.1.2010 kl. 10:44
Þetta er hræðilegt að lesa og furðulegt að fjölmiðlar hafi ekki gert þessu máli betri skil, en vonandi nær sonur þinn fullum bata. En sá látni kemur ekki til baka og allt er þetta vegna kæruleysis húseigandans. Slíka menn ber tafarlaust að færa fyrir dóm og setja í fangelsi. Ef þú ert að hugsa um undirskriftasöfnun, þá mun ég glaður skrifa undir slíkt.
Jakob Falur Kristinsson, 12.1.2010 kl. 11:08
Þetta er ljótt að frétta, Hulda, þó ljósglæta að sonur þinn skyldi sleppa og vonandi nær hann sér að fullu. Í tilviki sem þessu finnst mér eigi að nafngreina húseigandann, leigusalann, og nefna fleiri hús sem hann leigir út án þess að gæta frumskilyrða í eldvörnum og undankomuleiðum. Þú manst eflaust hvar hún langamma þín bjó á Kárastíg. Þar voru þó ekki nema tvær hæðir og hún hafði í sjálfu sér tvo stigaganga aðskilda, en samt voru þar brunakaðlar í öllum herbergjum. Bara til öryggis. Einu sinni var sonur minn að hugleiða að kaupa risíbúð í gömlu timburhúsi í miðbænum og bauð okkur foreldrunum að skoða hana með sér. Eftir þá skoðun sagði mamma hans: Þú ferð ekki að kaupa íbúð í svona bálkesti! Og hann tók orð hennar til greina (amk. í það skiptið).
Við á þessum bæ vottum þér samúð og óskum um leið til hamingju að ekki tókst ver til hvað þinn son snerti -- honum og ykkur fylgja góðar bænir.
Sigurður Hreiðar, 12.1.2010 kl. 11:42
Eg þakka þessi tilskrif þín og mun ekki liggja á liði mintu að taka þarna afstöðu,þá og fólkið sem misstu sinn son þarna ,en þin slapp en við illa leik og er ekki heill eftir það að sinni allavega/þið eigið samúð mína öll/Halli gamli
Haraldur Haraldsson, 12.1.2010 kl. 11:51
Um leið og ég samhryggist foreldrunum og öðrum ástvinum unga mannsins sem fórst í brunanum, vil ég bæði samhryggjast og samfagna þér Hulda. Það er auðvitað hryggilegt að heyra að sonur þinn skuli vera alvarlega veikur eftir atburðinn en jafnframt gleðilegt að hann skuli hafa haldið lífi. Setjum ekki veraldlegar eigur fyrir okkur í slíku samhengi.
Ég get ekki hugsað mér neitt þungbærara sem foreldri þyrfti að ganga í gegnum en það að missa barn sitt. Það henti foreldra mína fyrir hálfum sjötta áratug og enn má finna opin hjartasár móður minnar. Þau læknast aldrei, en fólk lærir að lifa með þeim.
Magnús Óskar Ingvarsson, 12.1.2010 kl. 22:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.