8.7.2010 | 20:01
Níðingsverk lánastofnana í skjóli stjórnvalda bera ábyrgð á mannslífum og VIÐ verðum að stöðva það,
Hvern morgun er ég skríð úr bælinu og brölti á fætur er það fyrsta sem ég geri (þ.e. eftir ferð á snyrtinguna) að kveikja á útvarpinu og líta yfir blöðin (með kvíðahnút í maganum oft á tíðum) og nær undantekningalaust steypist yfir mig ógleði og ég fæ óbragð í munninn og oft fyllist ég öskureiði og stundum hreinlega græt ég því margar sögurnar sem ég heyri eru svo óendanlega sorglegar. Athafnaleysi stjórnvalda er algert og ábyrgð þeirra er mikil.
Ein sagan sem virkilega snart mig og grætti mig var saga af ungum manni (sagan var í stórum dráttum á þennan veg skrifuð eftir minni hjá mér)sem fyrir kreppu rak blómlegt smáfyrirtæki í garð og lóðavinnu og hafði fjárfest í ýmsum tækjum vegna þess ásamt því að vera sjálfur að byggja íbúðarhús fyrir fjölskylduna. Til þess hafði hann tekið tvö gengistryggð lán annað fyrir húsbyggingunni þar sem faðir hans var ábyrgðarmaður á og hitt lánið vegna tækjakaupa fyrirtækisins sem hann rak á eigin kennitölu og ekki dugði viðskiptabankanum að taka veð í tækjunum og ekki heldur veð í húsinu hans þar sem fyrra lánið hvíldi á því en hús föður hans var skuldlaust og því fékk bankinn veð í því. Síðan skall kreppan á og ekki tókst að semja við bankann og allt endaði á hinn versta veg.
Maðurinn missti allt, húsið, bílarnir og tækin allt var tekið og síðan gengið á föður hans sem tókst að bjarga sínu húsi með því að nota ævi sparnaðinn.
Bankinn tók tækin upp í skuldina sem mig minnir að hafi verið í upphafi 13 milljónir en verið metin á 17 millj. þegar skellurinn kom, þar sem maðurinn hafði aukið verðmæti þeirra á þeim tíma sem hann átti þau en bankinn mat svo á 3,5 millj. á þeim tíma sem hann tók þau upp í skuldina. Þessi maður var búinn að leita allra leiða til þess að semja við bankann en án árangurs. Eftir að bankinn eignaðist húsið LEYFÐI hann fjölskyldunni að búa í húsinu í 6 eða 12 mánuði (man ekki nákvæmlega) gegn okurleigu.
Stuttu áður en sá tími rann upp að fjölskyldan þyrfti að fara úr húsinu bugaðist þessi ungi fjölskyldumaður og hreinlega gafst upp því honum fannst heimur hans hruninn og hann hafa brugðist fjölskyldunni og sá enga leið út úr vandanum.
Þessi saga endaði á þann hörmulega og sársaukafulla hátt, að þessi maður hengdi sig í bílskúrnum í húsinu sem bankinn hafði eignast og skildi eftir sig tvö bréf annað til fjölskyldu sinnar og hitt til bankans.
Eftir þetta reyndi faðir mannsins að semja við bankann um að leysa til sín tækin og reyna með því að lágmarka fjárhagslega skaðann sem hann hafði orðið fyrir (þó vissulega myndu peningar ekki færa honum soninn aftur) að þá gæti það hjálpað fjölskyldu sonarins til þess að fóta sig á ný. Hann bauð bankanum sama verð fyrir tækin og bankinn hafði metið þau á þegar hann tók þau upp í skuldina, en nei þá voru þau ekki lengur metin á 3,5 millj. heldur bauð bankinn gamla manninum þau á 10,5 millj.
Þarna er búið að leggja líf þriggja kynslóða í rúst þessi maður sem bugaðist vegna ólyfja sem bankinn bruggaði honum í skjóli spilltra stjórnvalda er því miður ekki einsdæmi.
Það eru margir þarna úti sem við fáum ekki fregnir af, sumir skammast sín aðrir treysta sér ekki til að opinbera sársauka sinn og sumir finna til skammar yfir því hvernig farið hefur verið með þá og svo eru þeir sem ekki eru lengur til meðal oss til að segja sögu sína eins og þessi ungi maður hér að ofan.
Ég lýt höfði í minningu þessa manns og fjölskyldu hans sem og allra annarra sem eiga um sárt að binda vegna skyldra mála og hafa orðið lánastofnunum og stjórnvöldum að bráð og bið ykkur öll að gera slíkt hið sama.
Kæru vinir við verðum að standa saman og krefjast aðgerða af hálfu hins opinbera og stjórnvalda í heild sinni og þó að allt sé í lagi hjá ykkur og þó þið skuldið ekki neitt þá berum við öll samfélagslega ábyrgð hvort á öðru.
Ég veit að þessi saga mun hafa sömu áhrif á ykkur og á mig og að lokum vil ég enn á ný árétta að ég skrifa þetta eftir minni eftir útvarpsþætti og því gætu einhver smáatriði hafa skolast til. Læt þessu lokið í bili og óska ykkur góðs dags.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
30.6.2010 | 03:31
Ætlar ríkisstjórn Íslands virkilega að beita sér gegn dómi Hæstaréttar??
Nú er orðið svo langt síðan ég hef komið í bloggheima að mér líður eins og ég sé að byrja í fyrsta sinn, en nú er ég mætt á ný enda búin að sakna ykkar vina minna hér mikið.
Það hefur mikið gengið á hjá mér þennan tíma bæði góðir hlutir og aðrir miður góðir. Kannski eins gott því hvernig getum við metið góðu hlutina ef við kynnumst aldrei þeim slæmu, en hins vegar þá finnst mér lífið kasta til mín óþarflega mörgum slæmum boltum til að vinna úr og kenna mér sömu lexíuna aftur og aftur. Kannski ég sé bara svo treg að ég þurfi að endurtaka sama bekkinn aftur og aftur.
Það er nú ekki eins og að það hafi bara gengið mikið á í mínu lífi heldur hafa stór mál skekið þjóðfélagið, mál sem snerta okkur öll og ég segi það satt ég veit hreinlega ekki hvar mig á að bera niður fyrst.
Ríkisstjórnin til að mynda er ekki lengur vanhæf að mínu mati heldur er hún stórhættuleg og hefur unnið landi og þjóð stórskaða hvern einn og einasta dag sem hún hefur setið og fer stöðugt versnandi. Við verðum að stöðva hana áður en hún ásamt stórum hluta þingheims steypir okkur í algera glötun undir handleiðlsu AGS og ESB. Hvernig væri nú að spara þann gríðarlega kostnað sem fer í umsókn og aðildaviðræður um inngöngu í ESB (sem stærsti hluti þjóðarinnar er algerlega mótfallin) og nota það fé til að hjálpa heimilunum í landinu og til þess að byggja upp atvinnuveginn í landinu ??
Eigum við að líða það að stjórnvöld setji lög til þess að hnekkja dómi Hæstaréttar varðandi myntkörfulánin ?? Það má ekki leiðrétta skuldastöðu heimilanna eða afskrifa skuldir þeirra, því þá gætu bankarnir og fjármögnunarfyrirtækin kannski, hugsanlega, mögulega fara á hausinn, þvílíkur hræðsluáróður.
Á sama tíma er verið að afskrifa milljarða á milljarða ofan af skuldum stórglæpamannanna sem settu hér allt í kaldakol og í ofanálag er verið að setja sum þessara fyrirtækja aftur í hendur sömu glæpamannanna.
Ekki nóg með það heldur eru þessir bankar (sem þarf að mati ríkisvaldsins að bjarga) að sýna tugi milljarða HAGNAÐ það sem af er ársins, þvílíkur skrípaleikur.
Ekki þar fyrir að sennilega yrði það bara hið besta mál ef þeir húrruðu yfir, að vísu myndu einhverjir sparifjáreigendur kannski tapa einhverju en sennilega litlu miðað það sem þeir eru nú þegar búnir að tapa. Við myndum þá fá hér útibú frá sterkum og heiðarlegum erlendum banka/bönkum og njóta vaxta sem megin þorri vestrænna ríkja búa við. Í mínum huga væri það gæfuspor fyrir þjóðina og við myndum öll njóta góðs af því.
Megi dagurinn verða ykkur gleði og gæfuríkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
1.6.2010 | 07:17
Ég held að það hljóti að vera eitthvað mjög mikið að Íslendingum
Nú er orðið nokk langt síðan ég hef skrifað um nokkuð nema eigin eymd og er ég nú með dálítinn móral yfir því hversu sjálfelskt það nú er en ég held ég geti nú sem betur fer fullyrt að það er ekki líkt mér þó svo það hljómi kannski annarlega í ykkar eyru.
Í ljósi nýafstaðinna kosninga dreg ég þá ályktun að eitthvað mikið hljóti að vera að í þjóðarsál okkar sem ég get á engan hátt skýrt.
Ég skil alveg reiði og örvæntingu hins almenna borgara og að þeir vilji refsa fjórflokknum og þeirra sem setið hafa við stjórnvölinn og vilji róttækar breytingar. En hvernig í ósköpunum dettur fólki í hug að lausnin sé falin í því að fá algera viðvaninga sem hafa engan stefnuskrá eða nokkra skýra sýn á því hvernig tekið verði á málum þeim sem skekja þjóðfélagið allt um þessar mundir.
Það er ekkert að því að nálgast mál og málefni á jákvæðan hátt með gríni en stóra málið er að það sem gengur á hjá okkur er grafalvarlegt og verður ekki leyst með fíflagangi. Auðvita er ég að tala um stórsigur besta flokksins í Reykjavík. Þó ég sé ekki búsett í borginni og hafði því ekki kosningarétt þar þá skiptir það miklu málið fyrir okkur öll hvernig haldið sé á málum þar því hún er jú höfuðborg allra landmanna.
En úrslitin liggja fyrir og mér finnst útkoman því miður afar sorgleg. Í upphafi þegar besti flokkurinn fór á stað fannst mér bara dálítið gaman að þessu og hugsaði sem svo að það væri bara gott að fá einn eða tvo menn inn í stjórnmálaflóruna til þess að hrista aðeins upp í því staðnaða stjórnmála umhverfi sem við öll erum orðin þreytt á og líka að til þess að létta brúnina á fólki svona mitt i allri þeirri orrahríð sem yfir okkur hefir gengið.
Innst inni trúði ég því aldrei að þrátt fyrir allar skoðanakannanir eða öllu heldur kannski vegna þeirra að þetta yrði útkoman, einfaldlega vegna þess að ég hélt að fólk setti málefni og stefnu á oddinn þegar á reyndi. Það er bara ekki nóg að hafna því sem maður er óánægður með heldur við verðum að hafa skoðun á því hvernig við viljum hafa hlutina.
Ég hef persónulega ekkert á móti þeim einstaklingum sem skópu þennan lista sem nú tekur við völdum í borginni en mér er spurn myndi nokkrum af hinum hefðbundnu stjórnmálamönnum verða liðið orðbragð eins og þetta ágæta fólk viðhefur eins og t.d. ýmislegt fyrir aumingja, ættleiðum róna eða fl. í þessum dúr ??? Ég HELD EKKI
Eða myndum við þola þessum hefðbundnu að svara alltaf á sama veg þegar þeir væru inntir eftir skoðun á málefnum að þeir viti það ekki en munu ráða sérfræðinga til allra starfa og gera sem allra minnst sjálf ??? ÉG HELD EKKI
Fyrir nú utan það hvað í ósköpunum ætli öll þessi sérfræði hjálp kosti ??? það væri fróðlegt að sjá þann verðmiða.
Eða hvað finnst ykkur um það að fyrsta yfirlýsta verk sigurvegaranna sé það að velja sér bíla myndi það vera liðið af hefðbundnu stjórnendum??? ÉG HELD EKKI
Nú þegar flórinn er svo yfirfullur að það er lífsspursmál að byrja á því að moka hann að þá dugir ekki að gera bara eitthvað.
Og hvað finnst ykkur um yfirlýsingu formannsins sem þeir svo kalla að besti flokkurinn sé það fallegasta og besta sem hann hafi skapað eða búið til ??? Er þetta ekki 5 barna faðir ???
Ég geri mér alveg grein fyrir því að mörgum mun þykja þetta afturáhalds nöldur og kjaftæði hjá mér en þá verður bara svo að vera, en hver veit svo sem kannski reynist þetta gæfuspor í borginni og vonandi hef ég rangt fyrir mér, en samt, ÉG HELD EKKI
Kæru vinir ég er döpur í bragði yfir því hvernig farið er fyrir okkur en er þetta besta svar okkar við ástandinu ? ÉG HELD EKKI
En nú óska ykkur öllum velfarnaðar og vissulega líka gleði og gengis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
30.5.2010 | 06:13
Ég græt í orðum
Kæru vinir, Nú er orðið nokkuð langt síðan ég hef látið í mér heyra, en fyrst hægri höndin er að byrja að virka á ný ætla ég að reyna að nýta mér það og vonandi helst hún í lagi því þó að sú vinstri sé nú nokkuð góð þá er tekur það mig óratíma að skrifa með henni einni.
Nú í þessum töluðu orðum er verið að lesa lokatölur upp úr kjörkössum og ég verð nú að segja eins og er að þetta eru sögulegar kosningar eða öllu heldur söguleg úrslit og eins og mér hefur nú alltaf fundist merkilegt við kosningaúrslit að eftir á þá líta allir frambjóðendur þannig á að þeir séu sigurverar, já hún er undarleg blessuð pólitíkin og því læt ég aðra um að fjalla um hana.
En fyrst og fremst þá langaði mig bara að þakka ykkur öllum sem hafið sent mér svo hlýjar, og hugulsamar kveðjur sem því miður ég hef ekki þakkað sem skyldi en hafa hjálpað mér meira heldur en ykkur mögulega gæti grunað og oft á tíðum lesið aftur og aftur og verið mér svo ótrúlega mikill styrkur og er ég svo innilega þakklát ykkur öllum. Ég var nú kannski ekkert hissa á því hversu mörg ykkar þekktu líðan mína af eigin raun, öllu heldur hversu mörg ykkar höfðu kjark til að láta vita af ykkur því ég veit að það er allt annað en auðvelt að tjá sig um eigin vanlíðan sama hver orsökin er.
En sjálfsagt hafið þið upplifað það alveg eins og ég að það er auðveldara að sleppa tilfinningunum lausum og tala um vandamálin við einhverja sem taka hlutina ekki inn á sig hvort sem það eru vinir, kunningjar eða fagfólk eða jafnvel við algerlega ókunnuga og því finnst mér stuðningur ykkar svo ótrúlega mikils virði, því með orðum mínum græt ég við ykkar öxl án þess að fá samvikskubit og ég get farið með orð ykkar með mér afsíðis og fengið útrás fyrir tilfinningarnar
Staðan varðandi heilsuna hjá mér er í hálfgerðri pattstöðu nú leita mínir læknar að skurððlækni sem treystir sér í það sem þarf að gera um leið og verið er að vinna að rannsóknum til þess að sína fram á þörfina til að taka þá áhættu sem hugsanlega gæti þurft að taka, aðgerð lengir kannski ekki líf mitt en gæti bætt lífsgæði mín til muna og auðvita á maður alltaf síðasta orðið sjálfur því auðvita vilja læknar alltaf að ábyrgðin sé okkar sjálfra, svo þegar til kastanna kemur verður ákvörðunin mín sennilega með hjálp ykkar.
Í síðustu færslu minni sagði ég frá kvíðanum sem greip mig þegar setti fyrstu færsluna í þessa veru í loftið. Vissulega var ég dálítið kvíðin fyrir ykkar viðbrögðum (sem voru alveg stórkostleg) en fyrst og fremst kveið ég viðbrögðum þeirra sem standa mér næst, því maður vill ekki vekja áhyggjur eða vekja sektarkennd hjá þeim.´
Því er nefnilega oftar en ekki þannig farið að við hin langveiku erum alltaf að reyna að hlífa okkar nánustu og stappa í þá stálinu og reynum að vera sterkari aðilinn, sem oft á tíðum getur verið yfirþyrmandi og erfitt.
Fyrsta minning í í þessa veru er síðan vorið sem ég var nýlega orðin 5 ára gömul. Haustið á undan hafði ég ásamt systur minni (sem var 5 árum eldri en ég) og móður flutt úr Rvk. norður í sveitina mína, þar sem móðir mín gekk að eiga bóndason. Móðir mín hafði átt erfitt líf og átti eldri systur mína, mig og á milli okkar dreng sem hún missti mjög ungann öll með sitthvorum manninum.
Þetta vor var ég búin að hitta nokkru sinnum telpur, aðra sem var jafngömul mér en hin ári eldri, þetta voru frænkur sem bjuggu á sömu jörð en samt á sitthvorum bænum þeirra jörð og stjúpa míns lágu saman og var svona 10-15 mín. ganga á milli. Þennan vordag ætluðum við að hittast og ætluðu þær að ganga á móti mér sem þær og gerðu og mættumst við um miðja vegu þar sem fjárhús og hlaða annarrar telpunnar var staðsett og þær gengu í átt að mér með hendurnar fullar af skít og grýttu mig með honum og hrópuðu að mér að mamma mín væri mella og hóra og fl. í þeim dúr. Hvorki ég né þær vissum þá hvað þessi ljótu orð þýddu en þær höfðu heyrt fullorðna fólkið brúka þau og endurtóku það sem þær heyrðu þar.
Ég hljóp sem fætur toguðu aftur heim hágrátandi og þegar mamma innti mig eftir því hvað hafði gerst svaraði ég engu en lokaði mig af inni í herbergi.
Þó ég vissi engan veginn hvað þessi hræðilegu orð þýddu þá gerði ég mér grein fyrir því að ef ég myndi segja mömmu frá þessu þá myndi það særa hana sennilega enn meira en mig og því kaus ég frekar að þegja.
Síðan þetta var hefur mikið vatn runnið sjávar, en þessi hugsun hefur fylgt mér gegnum tíðina og í gegnum áralöng veikindin hef ég kynnst afar mörgum sem hugsa og akta eins.
Nú læt ég þessu lokið á þessum fallega morgni og óslka ykkur vellíðunar og gæfu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.5.2010 | 03:56
Er hægt að vera jákvæð nöldurskjóða ? eða......
Suma daga vakna ég og mér finnst ég getað sigrað heiminn og lagt hann að fótum mínum og það geti ekkert stoppað mig. Á slíkum stundum er ég full þakklætis og ég nýt þess að hlusta á fuglasönginn, og dáðst að blómunum og notið þessara hversdagslegu hluta eins og t.d. að baka, elda mat, setja í þvottavél og vaska upp, og njóta þess að sitja og sauma út eða skapa eitthvað jákvætt. Ég veit að vísu aldrei hversu löng sú stund verður því þetta getur allt sveiflast og breyst á einhverjum klukkustundum.
Svo koma hinar stundirnar þegar maður eyðir fleiri klukkustundum sitjandi á kamrinum með hausinn ofan í skúringafötu maður er eða þegar kvalirnar eru svo miklar að þörfin fyrir verkjalyf er það mikil að aukaverkanir lyfjanna gera syfjaða, sljóa með tilheyrandi höfuðverki og ógleði.
Þær stundir virkar einfaldlega ekki að segja manni að vera jákvæður eða benda manni á fuglana og blómin (það segir að vísu enginn sem sér mann í þannig ástandi) eða annað sem undir venjulegum kringumstæðum myndi gleðja mann.
Kannski er mér um að kenna á einhvern hátt því mér er meinilla við að tala um veikindi mín (sem ykkur kann að þykja undarlegt miðað við skrif mín síðustu dagana).
ÉG held að ástæðurnar fyrir því séu nú nokkrar, í fyrsta lagi kannski vegna þess að í gegnum tíðna og þá alveg frá barnæsku kynntist maður fólki sem var svo upptekið af eigin veikindum þar sem öllu var lýst út í ystu smáatriði hvað væri að, hvað læknarnir hefðu sagt, hvernig rannsóknum hefðu gengið fyrir sig og það var alveg sama hvernig maður reyndi að stýra samræðunum inn á aðrar brautir snerist alltaf allt á ný um veikindin. Það var alveg klárt hjá mér ég ætlaði ekki að enda sem óþolandi vælukjói, síkvartandi enda áttaði ég mig fljótt á því það þeir kvörtuðu mest sem minnst var að.
Nú verð ég að hætta hitinn orðinn 40 stig og fermingarveislan sem ég ætlaði í norður á Húsavík endar sennilega bara á Landspítalanum. Þið munuð heyra frá fljótlega ef allt gengur vel(eða ekki) svo þangað til, kærleikskveðja til ykkar allra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
20.5.2010 | 07:19
Máttur Orða og Hlýleika
Þegar ég setti síðustu færslu í birtingu greip mig rosalegur kvíði og hræðsla og ég hugsaði hvernig í ósköpunum ég gæti farið að því að afturkalla hana aftur, því ég er alls óvön að tjá mig á svona persónulega hátt og mér fannst ég svo gjörsamlega berskjölduð og auðsæranleg.
Þegar ég var barn þá skrifaði ég niður allt það helsta sem mér lá á hjarta. Ég skrifaði um allt það sem gladdi mig, og það sem ég var þakklát fyrir eins skrifaði ég um það sem hryggði mig eða þegar eitthvað amaði að og þegar mér sárnaði eða var hrædd. Ég skrifaði líka um væntingar mínar til bæði til sjálfrar mín og annarra og stundum urðu til ljóð, vísur og jafnvel smásögur og síðan óteljandi bréf til föður míns sem ég hafði aldrei séð eða kynnst án þess að fá nokkur viðbrögð eða svör frá honum sem samt stoppaði mig samt ekki í því að banka uppá hjá honum þegar ég var 13 ára en þá var ég á eigin vegum í leit að vinnu eftir góðan vetur í héraðsskólanum Núpi í Dýrafirði. Það sem ég er nú að reyna að koma frá mér er einfaldlega það (þegar ég byrja á annað borð er ég komin út á víða völl sorry) að í þá daga var þetta mín leið til að höndla og vinna úr því sem bar á mína daga.
Einhversstaðar á leiðinni hætti ég að skrifa veit ekki hvers vegna en núna rifjast það upp fyrir mér hvers vegna ég notaði þessa leið á mínum yngri árum að vísu er munur á skrifum mínum þá og nú fólgnar í því að enginn las það sem ég skrifaði þá en þetta er meðferð sem virkar það finn ég og eiginlega enn betur nú þegar þið hafið ómakað ykkur við að lesa orð mín. Kæru vinir viðbrögð ykkar við skrifum mínum hafa styrkt mig og hvatt mig til hugrekkis og eru mér afar mikils virði og allur hlýhugurinn er líka ómetanlegur. Læt þessu lokið nú. Bestu þakkir enn á ný og hafið það alltaf sem allra best.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.5.2010 | 23:40
Vilji til Lífsins og Reynslubrot
Enn á ný er lífæðin mín að klikka og sá skurðlæknir sem skilaði af sér svo slælegri vinnu nú í mars s.l. tjáði mér nánast í beinum orðum að það þýddi ekkert að reyna lappa uppá hana meir enda væri það heldur ekki í hans verkahring og hann hafi eingöngu gert fyrri aðgerðina vegna þess að kollegi hans hafði beðið hann um það. Sá læknir hafði reynst mér afar vel og hafði áhuga á að gera vel og lét það skipta sig máli hvernig mér liði, og leitaði leiða til þess að bæði lengja líf mitt og bæta það, ólíkt þeim fyrrnefnda sem stendur nákvæmlega á sama og fannst auðsjáanlega ekki þess virði að gera neitt, því ég eigi hvort sem er ekki það langt eftir að það taki sig ekki að ómaka sig neitt frekar.
Við sem erum langtíma sjúklingar með flókin og erfið vandamál erum eins og skítugu börnin hennar Evu forðum, enginn vill eiga okkur og helst enginn koma nálægt okkur og helst ekki sjá okkur heldur og í besta falli vísa þeir ábyrgðinni hvor á annan. Ég hef oft velt því fyrir mér af hvaða hvötum þessir menn fóru út í það læra læknisfræði og held að það hljóti að vera annaðhvort launin eða þá titillinn í.þ.m. ekki vegna ástar á starfinu eða af löngun til að hjálpa fólki og alls ekki af hugsjón svo mikið er víst. Auðvita eru margir góðir læknar starfandi hér en að mínu mati eru þeir því miður margfalt færri en hinir. Það virðist vera þannig að læknar vilji helst fá sjúklinga sem þeir geti sjúkdómsgreint og í framhaldi af því leyst vandamál þeirra á sem einfaldasta hátt sem er vissulega það albesta en því miður erum við mörg hérna úti langveik sem erum bara rekald í kerfinu og viðmótið á þann veg að sem ég lýsti hér að ofan og það er svo skrítið að þeir virðast ekki hafa neinn metnað þegar þeir standa frammi fyrir flóknum aðgerðum, maður myndi halda að þeir myndu fagna því að takast á við eitthvað annað en þær einföldu aðgerðir sem mæta þeim dags daglega, og líta frekar á það sem áskorun og með því móti að læra og leitast eftir því að bæta sig, en því miður er raunin önnur.
Því miður reynist mér oft afar erfitt að halda í lífsviljann. Hann sveiflast eins og loginn á kertinu sem ég hef ávallt við hlið mér en samt þegar manni er tjáð að kertið sé að brenna upp þá vill maður halda sem fastast og er ekki tilbúin að sleppa og þó svo mér finnist teljarinn drepleiðinlegur og sívælandi og statífið á ónýtum hjólum og erfitt sé að koma því á milli herbergja þessa tvo sólarhringa á viku sem ég er tjóðruð við það, þá hefur það breytt svo miklu til hins betra fyrir mig og bætt lífsgæði mín til muna og því get ég ekki hugsað það til enda að missa það á ný enda mun þá kerta kveikurinn brenna margfalt hraðar ef svo fer.
En svona standa nú málin og maður skyldi nú kannski ætla að það fá slæmar fregnir venjist á einhvern hátt en þannig er það ekki get ég sagt ykkur og oft er nú sagt við mig ,, þú ert nú svo dugleg og öllu vön að það bítur nú ekkert á þig,, þá bara jánkar maður því og grætur svo einn í tómið og reynir að finna einhverja glætu og tilgang í því að berjast áfram vegna þess að það er svo auðvelt að sökkva niður í neikvæðar hugsanir þegar illa gengur eins og það að maður sé gjörsamlega gagnlaus og öðrum eingöngu til byrði.
Nú læt ég þessu lokið að sinni en mun halda áfram á þessum nótum EF ég hef til þess kjark og getu en þangað til hlýlegar kveðjur til ykkar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
4.5.2010 | 02:35
Eru engin takmörk fyrir óþverranum
Ég var fegin að mbl í dag var inná baðherbergi þegar ég sá það fyrst í morgun, því mér varð svo ómótt að það lá við að ég hreinlega ældi.
Aumingja seðlabankastjórarnir eru svo lágt launaðir að þeir þurfa að fá smávægilega launahækkun, aðeins litlar 400.000 svo þeir hafi nú í sig og á.
Siðblindan virðist alger. Maður spyr sjálfan sig hvort þetta hljóti bara ekki að vera einhverskonar heilkenni eða einhver geðfötlun sem annaðhvort er ættgeng eða jafnvel bráðsmitandi faraldur sem virðist hafa breiðst út eins og eldur í sinu í formi græðgi, spillingar, svika og lygavefjum og ekki bara hér á Íslandi heldur vítt og breytt um heiminn ekki ósvipað fellibyl sem fer um eyðandi og eirir engu þar sem hann fer um.
Ég hef alla tíð verið andvíg ofbeldi í allri mynd en núna langar mig mest að ganga berserksgang (þó ég viti nú kannski ekki alveg hvernig sá gangur er) Ég myndi vilja smala öllu þessu skítapakki og buxnaskjónum niður á torg tjarga þá og fiðra og setja svo í gapastokka og hafa þá þar til sýnis eins og gert var hér áður fyrr.
Ég er vissulega ekki bara að tala um seðlabankann og þá spjátrunga og dusilmenni sem hafa vermt þægindasætin þar og verið sem lúxus heilsu og hvíldarheimili fyrir afdankaða stjórnmálamenn heldur líka stóran hluta þingheims, steinrunna embættis og eftirlitstofnanir og allt þetta svikula og lævísa lygapakk sem ber ábyrgð á því ástandi sem við stöndum frammi fyrir í dag og ekki má nú gleyma stjórnendum lífeyrissjóðanna og verkalýðsforustunni og svo má lengi telja.
Ætla ráðamenn virkilega ekki að fara að hlusta á okkur hinn almenna borgara sem situr í súpunni á meðan þeir greiða sjálfum sér himinhá laun en lækka svo laun, okkar lífeyri og bætur ?
Eða hugsa kannski bara allir eins og Ingibjörg Sólrún þegar hún sagði svo eftirminnilega ,,þið eruð ekki þjóðin,,
Það er búin að vera umræða um skort á fangelsisrými og jafnvel svo að dómar séu að fyrnast áður en rými fæst. Fáráleikurinn virðist alger sama hvar mann ber niður. Hvernig væri nú að byrja á því að senda alla fanga með erlent ríkisfang aftur heim svo það skapist rými fyrir ísl. afbrotamenn áður en dómar þeirra fyrnist og svo að stofna fanga og vinnubúðir annaðhvort á einhverri eyjunni hér við land eða jafnvel á Grænlandsjökli þar sem hægt væri að geyma alla þá hvítflibbaglæpamenn sem rústuðu öllu hér sama hvaða nafni þeir nefnast og bera mikla/alla ábyrgð á því sem komið er
En ég veit og finn að mælir okkar þegnanna er að fyllast (nú þegar fullur hjá mörgum)og veit að það kemur að því að við fáum öll nóg og þá held ég að það komi verulega við kaunin hjá þessu liði.
Læt þessu lokið nú og sendi baráttu kveðjur til ykkar allra
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.4.2010 | 01:15
Sársauki, Hryggð vegna Ógnarvalda náttúruaflanna og sorg vegna Bakkusar
Einhvern veginn er það greypt í huga mér minning frá því ég var 7 eða 8 ára. Þá voru stjúp afi og amma heima í sveitinni að hætta með allan búskap og gerðu það smátt og smátt, blessaðar kýrnar sem höfðu nú aldrei verið margar á okkar bæ aldrei fleiri en 7 ef ég man rétt, en þær höfðu samt alltaf verið afa hugleiknar og kannski einmitt þess vegna er þessi minning svona sterk í mínum huga.
Þegar þetta var þá hafði afi selt síðustu mjólkurkúna hana Skjöldu og menn voru komnir á stórum yfirbyggðum trukki til þess að ná í hana og flytja til nýrra heimkynna. Þetta var afa alveg sérlega erfitt enda þótti honum svo innilega vænt um dýrin sín og þegar hann kvaddi þessa síðustu kú þá grét hann og var afar hryggur.
Síðan þegar riðuveiki kom upp á mörgum bæjum þá þurftu margir bændur að skera niður og kveðja bústofn sem hafði verið ævistarf 3ja kynstofna að rækta upp.
Þessar minningar streyma fram hjá mér nú þegar margir bændur standa frammi fyrir því að geta ekki bjargað öllum eða að hluta af bústofni sínum og þurfa jafnvel að bregða búi og yfirgefa heimili sín (þar sem sumir hafa jafnvel búið alla sína ævi)og skilja eftir verðmætar húseignir um óljósan tíma sem allt eins gæti verið til frambúðar.
Ég er alls ekki að gera lítið úr erfiðleikum annarra heimila í landinu (sem vissulega eru mikil) en þetta fólk sem hefur ræktað upp landið í þágu allra Ísl. og hefur séð okkur fyrir best fáanlegu matvælum í heimi.
Nú þarf þetta mæta fólk á okkar hjálp að halda til að blása þeim í brjóst kjarki og bjartsýni og láta það finna að okkur stendur ekki á sama um afdrif þeirra.
Því bið ég ykkur kæru vinir að hugsa hlýlega og af þakklæti til þessa fólks og minnast þeirra í bænum ykkar. Þó svo við séum blönk, og eigum sjálf um sárt að binda þá höfum við öll efni á að sýna vinarþel og hlýhug.
Eins langar mig að biðja ykkur þess sama fyrir hamri slegnar fjölskyldur sem vegna Bakkusar lentu í hörmulegu slysi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
23.4.2010 | 23:06
Hvort eru íslendingar líkari hestum eða lamadýrum???
Ég annaðhvort las eða heyrði nokkuð góða samlíkingu nú fyrir stuttu. Þar var verið að bera saman hesta annars vegar og lamadýr annars vegar.
Hesturinn er það hollur eiganda sínum og hlýðinn að það er alveg sama hversu þungum byrðum er hlaðið á hann þá heldur hann áfram alveg þangað til hann hnígur niður og getur sig ekki hreyft eða einfaldlega dettur niður dauður.
Lamadýrin hins vegar sem víða eru notuð í sama tilgangi þ.e. sem burðar og vinnudýr og láta einfaldlega ekki kúga sig á sama hátt og hestarnir. Þegar búið er hlaða á þau meiri byrðum en þeim hugnast að bera þá einfaldlega leggjast þau niður og mótmæla og láta ekki misbjóða sér, en eru samt trygg húsbónda sínum svo framalega að hann sé þeim góður húsbóndi og meðhöndli þau af virðingu og kunni að meta vinnu þeirra.
Svo mér er spurn hvort ætlum við íslendingar að vera sem hrossin og láta kúga okkur og taka sífellt þyngri og þyngri byrðar á okkar herðar alveg þar til við örmögnumst o.e. deyjum eða ætlum við að vera eins og lamadýrin og láta yfirboðara okkar vita það og skilja, að NÚ sé komið að því að við segjum hingað og ekki lengra, mælirinn sé fullur og við krefjumst þess að hlustað sé á okkur, við krefjumst úrbóta fyrir heimilin í landinu, við krefjumst þess að ráðamenn axli ábyrgð á gjörðum sínum bæði fyrir og eftir hrun og eins krefjumst við þess að þeir sem rændu bæði bankana, fólkið í landinu og auðlindir okkar ásamt ímynd okkar og heiðurs verði látnir svara til saka og refsað á viðeigandi hátt ef þeir á annað borð vilji halda byggð hér í þessu stórkostlega landi okkar sem ég held að hjarta okkar flestra slái til. Við verðum að standa upp úr hægindastólnum og mótmæla á sýnilegan hátt, það er auðvita gott að blogga um málin og ræða málin en það bara dugar einfaldlega ekki til, SVO BETUR MÁ EF DUGA SKAL kæru landsmenn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)