21.5.2010 | 03:56
Er hægt að vera jákvæð nöldurskjóða ? eða......
Suma daga vakna ég og mér finnst ég getað sigrað heiminn og lagt hann að fótum mínum og það geti ekkert stoppað mig. Á slíkum stundum er ég full þakklætis og ég nýt þess að hlusta á fuglasönginn, og dáðst að blómunum og notið þessara hversdagslegu hluta eins og t.d. að baka, elda mat, setja í þvottavél og vaska upp, og njóta þess að sitja og sauma út eða skapa eitthvað jákvætt. Ég veit að vísu aldrei hversu löng sú stund verður því þetta getur allt sveiflast og breyst á einhverjum klukkustundum.
Svo koma hinar stundirnar þegar maður eyðir fleiri klukkustundum sitjandi á kamrinum með hausinn ofan í skúringafötu maður er eða þegar kvalirnar eru svo miklar að þörfin fyrir verkjalyf er það mikil að aukaverkanir lyfjanna gera syfjaða, sljóa með tilheyrandi höfuðverki og ógleði.
Þær stundir virkar einfaldlega ekki að segja manni að vera jákvæður eða benda manni á fuglana og blómin (það segir að vísu enginn sem sér mann í þannig ástandi) eða annað sem undir venjulegum kringumstæðum myndi gleðja mann.
Kannski er mér um að kenna á einhvern hátt því mér er meinilla við að tala um veikindi mín (sem ykkur kann að þykja undarlegt miðað við skrif mín síðustu dagana).
ÉG held að ástæðurnar fyrir því séu nú nokkrar, í fyrsta lagi kannski vegna þess að í gegnum tíðna og þá alveg frá barnæsku kynntist maður fólki sem var svo upptekið af eigin veikindum þar sem öllu var lýst út í ystu smáatriði hvað væri að, hvað læknarnir hefðu sagt, hvernig rannsóknum hefðu gengið fyrir sig og það var alveg sama hvernig maður reyndi að stýra samræðunum inn á aðrar brautir snerist alltaf allt á ný um veikindin. Það var alveg klárt hjá mér ég ætlaði ekki að enda sem óþolandi vælukjói, síkvartandi enda áttaði ég mig fljótt á því það þeir kvörtuðu mest sem minnst var að.
Nú verð ég að hætta hitinn orðinn 40 stig og fermingarveislan sem ég ætlaði í norður á Húsavík endar sennilega bara á Landspítalanum. Þið munuð heyra frá fljótlega ef allt gengur vel(eða ekki) svo þangað til, kærleikskveðja til ykkar allra.
Athugasemdir
Blessuð Hulda.
Það er ekkert að því að líða illa, svona fyrir utan hvað það er ógeðslega vont, og segja frá því.
Umhverfið þarf líka að vita af hverju maður dregur sig í hlé, og af hverjum brosið er gríma þó vorið kalli á allan hringinn.
Það er þögnin og feluleikurinn sem er verstur, bæði fyrir þá sem eru i kringum mann, og svo mann sjálfan.
Kostirnir við góðu dagana, er sá að þeir eru góðir. Einn slíkur er stundum nóg til að maður þrauki næsta verkjakast, allavega segir mín reynsla mér það, þó vissulega getur verið allur gangur þar á.
Og að segja frá, er ekki sama og að kvarta.
Og það eru fleiri þarna úti sem kannast við það sálarstríð sem þú ert að lýsa og það eru fleiri sem hafa kannað víðlendur skúringarfötunnar.
En ekki er öllum gefið að tjá sig á þann einlæga hátt sem þú gerir, en upplifa sína reynslu í þínum orðum.
Þagnarmúrar eru til að rjúfa, veit mörg dæmi þess að slíkt hafi forðað fólki frá dýpstu örvæntingu að geta tjáð sig og hlustað á aðra tjá sig um sömu upplifun.
Segi bara eins og Maggi Skarphéðins, "we are not alone".
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 21.5.2010 kl. 08:53
Hulda mín, það er einmitt gott að geta talað opinskátt um veikindi sín. Þá að minnsta kosti sitja þau ekki föst í líkamanum og hrannast upp og gera þig veikari. Það ér léttir að geta talað um það sem liggur manni á hjarta og heilsan er það dýrmætasta sem hver maður á, því ef hún er ekki í lagi, er ekki nægileg orka til að geta allt hitt sem maður vill gera.
Ég óska þér alls hins besta og hugur minn verður hjá þér, ég skal meðtaka fuglasönginn fyrir þig og enduróma hann í huga þínum ljúfan mín. Reyndu bara að hugsa um að ná heilsunni aftur. Margfalt knús á þig og láttu þér batna. Svo er ég í símaskránni. Reyndar er ég með nýtt gemsanúmer það er 6187751.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 21.5.2010 kl. 09:25
Elsku Hulda, eins og það getur verið leiðinilegt að hlusta á sumt fólk básúna veikindi sína, þá finnst mér bara ekkert leiðinlegt að lesa skrif þín, reyndar er ég mjög sorgmædd yfir að þér skuli líða svona illa, en mér finnst frábært hjá þér að skrifa um þetta, við ráðum þá hvort við lesum sem hingað komum og vonandi getum við veitt þér einhvern styrk, ég get allavega lofað að ég skil þig og þú átt samúð mína og ég skal senda þér allan þann styrk sem ég get, ég er alltaf aflögufær voandi verður dagurinn góður, kær kveðja
Ásdís Sigurðardóttir, 21.5.2010 kl. 11:39
Hulda mín, ég sendi þér mínar bestu batakveðjur. Er sannfærð um að allar góðar óskir hafa áhrif. :)
Ég sé að við sem leggjum inn athugasemd hér þekkjum sársaukann, bæði þann líkamlega og þann tilfinningalega. Það er alltaf góð tilfinning að geta deilt slæmu stundunum með öðrum sem skilja.
Kolbrún Hilmars, 21.5.2010 kl. 17:39
Hæ Hulda. Ég hef alltaf metið þig fyrir að tala með hjartanu og gerðu bara það sem virkar fyrir þig, við hin skiptum minna máli. Ég óska þér velgengni og vellíðunar.
Gylfi Gylfason (IP-tala skráð) 21.5.2010 kl. 17:58
Hulda mín! Ég óska þér góðs bata og sendi þér baráttukveðjur í veikindunum. Með bestu kveðju,
Magnús Óskar Ingvarsson, 21.5.2010 kl. 22:02
Baráttukveðjur.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 22.5.2010 kl. 01:02
stattu thig Hulda, sendi thér baráttukvedju og milljón sólargeysla hédan frá sudurhöfum
Gunnlaugur H Gunnlaugsson, 22.5.2010 kl. 06:26
Batakveðjur til þín í veikindunum.
Anna Guðný , 22.5.2010 kl. 11:50
Hulda : Þakka þér fyrir að deila með okkur hinum, erfileikum þínum, okkur hættir til að finnast að við höfum það skítt, þegar áfengið hækkar í verði, eða að skattar séu hækkaðir, og okkur yfirsést oftar en ekki það sem skiptir máli, ég verð að viðurkenna að eftir að hafa lesið pistla þína, að þá finnst mér ég vera vanmátugur og lítið geta gert, en mér finnst vera auðveldara að borga skattana, og mér finnst að ég hafi það bara helvíti gott (fyrirgefðu orðalagið), verst er samt sú tilfinning sem maður fær, en jafnframt þakkarvert þitt framlag til þess, að sumt verður ekki umflúið, og að þessi hérvist er ekki tóm sæla, haf þökk fyrir, og haltu áfram að segja okkur frá því hvernig þér líður, þú ert ekki ein og það eiga margir eftir að þurfa að ganga þann veg sem þú nú fetar, við hin höfum ekkert nema gott af því að kynnast hinu raunverulega lífi, í öllum sínum myndum,. kveðja Magnús
Magnús Jónsson, 30.5.2010 kl. 02:10
Minn kæri Magnús, þakka þér hjartanlega þín fallegu orð og hlýleika. Ef einhver finnur meiri tilgang eða kann á einhvern hátt betur að meta það sem hann hefur er tilgangi mínum með skrifum mínum náð. En hins vegar finnst mér miður ef einhverjum líður illa fyrir vikið, en eins og þú bendir svo réttilega á þá eiga margir eftir að feta sambærilega stígi og ég og því er það mín einlæga ósk að þið öll sem þekkið fólk sem er í sömu eða svipuðum aðstæðum og ég og það er að vera til staðar og láta vita að ykkur standi ekki á sama og sýna þeim ykkar væntumþykju. Bestu kveðjur til þín og þinna og enn og aftur takk fyrir mig
Hulda Haraldsdóttir, 30.5.2010 kl. 15:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.