16.5.2010 | 23:40
Vilji til Lífsins og Reynslubrot
Enn á ný er lífæðin mín að klikka og sá skurðlæknir sem skilaði af sér svo slælegri vinnu nú í mars s.l. tjáði mér nánast í beinum orðum að það þýddi ekkert að reyna lappa uppá hana meir enda væri það heldur ekki í hans verkahring og hann hafi eingöngu gert fyrri aðgerðina vegna þess að kollegi hans hafði beðið hann um það. Sá læknir hafði reynst mér afar vel og hafði áhuga á að gera vel og lét það skipta sig máli hvernig mér liði, og leitaði leiða til þess að bæði lengja líf mitt og bæta það, ólíkt þeim fyrrnefnda sem stendur nákvæmlega á sama og fannst auðsjáanlega ekki þess virði að gera neitt, því ég eigi hvort sem er ekki það langt eftir að það taki sig ekki að ómaka sig neitt frekar.
Við sem erum langtíma sjúklingar með flókin og erfið vandamál erum eins og skítugu börnin hennar Evu forðum, enginn vill eiga okkur og helst enginn koma nálægt okkur og helst ekki sjá okkur heldur og í besta falli vísa þeir ábyrgðinni hvor á annan. Ég hef oft velt því fyrir mér af hvaða hvötum þessir menn fóru út í það læra læknisfræði og held að það hljóti að vera annaðhvort launin eða þá titillinn í.þ.m. ekki vegna ástar á starfinu eða af löngun til að hjálpa fólki og alls ekki af hugsjón svo mikið er víst. Auðvita eru margir góðir læknar starfandi hér en að mínu mati eru þeir því miður margfalt færri en hinir. Það virðist vera þannig að læknar vilji helst fá sjúklinga sem þeir geti sjúkdómsgreint og í framhaldi af því leyst vandamál þeirra á sem einfaldasta hátt sem er vissulega það albesta en því miður erum við mörg hérna úti langveik sem erum bara rekald í kerfinu og viðmótið á þann veg að sem ég lýsti hér að ofan og það er svo skrítið að þeir virðast ekki hafa neinn metnað þegar þeir standa frammi fyrir flóknum aðgerðum, maður myndi halda að þeir myndu fagna því að takast á við eitthvað annað en þær einföldu aðgerðir sem mæta þeim dags daglega, og líta frekar á það sem áskorun og með því móti að læra og leitast eftir því að bæta sig, en því miður er raunin önnur.
Því miður reynist mér oft afar erfitt að halda í lífsviljann. Hann sveiflast eins og loginn á kertinu sem ég hef ávallt við hlið mér en samt þegar manni er tjáð að kertið sé að brenna upp þá vill maður halda sem fastast og er ekki tilbúin að sleppa og þó svo mér finnist teljarinn drepleiðinlegur og sívælandi og statífið á ónýtum hjólum og erfitt sé að koma því á milli herbergja þessa tvo sólarhringa á viku sem ég er tjóðruð við það, þá hefur það breytt svo miklu til hins betra fyrir mig og bætt lífsgæði mín til muna og því get ég ekki hugsað það til enda að missa það á ný enda mun þá kerta kveikurinn brenna margfalt hraðar ef svo fer.
En svona standa nú málin og maður skyldi nú kannski ætla að það fá slæmar fregnir venjist á einhvern hátt en þannig er það ekki get ég sagt ykkur og oft er nú sagt við mig ,, þú ert nú svo dugleg og öllu vön að það bítur nú ekkert á þig,, þá bara jánkar maður því og grætur svo einn í tómið og reynir að finna einhverja glætu og tilgang í því að berjast áfram vegna þess að það er svo auðvelt að sökkva niður í neikvæðar hugsanir þegar illa gengur eins og það að maður sé gjörsamlega gagnlaus og öðrum eingöngu til byrði.
Nú læt ég þessu lokið að sinni en mun halda áfram á þessum nótum EF ég hef til þess kjark og getu en þangað til hlýlegar kveðjur til ykkar.
Athugasemdir
kvitt bloggvinkona og baráttukveðjur,megi góður Guð vera með þér /Halli gamli
Haraldur Haraldsson, 17.5.2010 kl. 00:25
Sæl Hulda.
EKKI gefast upp
Haltu í það að þetta lagist fullkomnlega
og vertu jákvæð,
hleyptu neikvæðninni ALDREI að þér
og það kemur að því að þú verður heil á ný..
Ég styð þig í því.
Kærleikskveðja á þig.
Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 17.5.2010 kl. 01:35
Kæra Hulda - Ég sá þátt á Omega í gær - Trúin og Tilveran Friðrik Schram prestur í Íslensku kristkirkjunni talaði við konu sem heitir Sigríður Jónsdóttir hún sagði meðal annars frá heilsubætandi starfi sem hún býður upp á - þegar ég las bloggið þitt datt mér hún til hugar þess vegna vil ég segja þér frá henni - ef hún væri með það sem hentaði þér - hún gaf upp símanúmer - en ég skrifaði það ekki hjá mér.
Það væri kannski hægt að fá símann hennar hjá Íslensku kristkirkjunni.
Trúin og Tilveran er oft endur flutt - ég sá í dagskrá Omega í Mogganum í dag að hann er kl. 14.30 í dag.
Davíðssálmur 23 - er mjög gefandi lesning.
Guð veri með þér allar stundir.
Benedikta E, 17.5.2010 kl. 08:42
Blessuð Hulda.
Takk fyrir einlæg og heiðarleg skrif.
Þú ert ekki ein, svo margir kannast við það sem þú ert að lýsa, þó þeir geymi það inní sér.
En þeir skilja þig.
Að einhver tjái málstað óhreinu barnanna er ómetanlegt.
Ég veit að þú hefur kjarkinn og vonandi mun þrekið haldast líka, því svona skiptir máli fyrir mennsku okkar allra. Að einhver tjái sig og segi, við eigum líka tilveru og við höfum tilfinningar. Og ,... , það má svo margt segja í viðbót, en ég eftirlæt þér það,
Vonandi.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 17.5.2010 kl. 09:03
Kæra Hulda.Misstu ekki trúna á lífið og tilveruna.Guð og allir góðir vættir styrki þig og styðji.
Ingvi Rúnar Einarsson, 17.5.2010 kl. 11:11
Ég vona að þér gangi sem allra best, gott ráð hjá þér að skrifa um vandræði þín það hjálpar. Ég hef verið svo heppin í mínu læknastríði að hafa nær alltaf hitt á góða lækna sem hafa reynt að leysa mín mál, ef einhver gefst upp á mér þá finn ég mér bara annan, en kannski er það stundum hægara sagt en gert. Baráttukveðja
Ásdís Sigurðardóttir, 17.5.2010 kl. 20:10
Elsku stelpan mín, þegar svartnættið er algjört og maður heldur að allt sé horfið, þá kemur ljós punktur og gefur manni þrek til að halda áfram. En viltu hringja í mig ef þú þarft að tala og létta á þér elskuleg mín. Það er stundum gott að geta rutt frá sér erfiðleikum með því að ræða við einhvern sem þekkir svartnættið og kann jafnvel að koma sér undan því. Knús ljúfust þú finnur mig í símaskránni.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.5.2010 kl. 22:57
Það mættu vera til fleiri þú eins og tjáningar þínar sýna þá ertu perla láttu í þér heyra og við munum hlusta
Sigurður Haraldsson, 17.5.2010 kl. 22:58
Kæru Halli og Þórarinn, innilegar þakkir til ykkar þið stappið í mig stálinu
Hulda Haraldsdóttir, 19.5.2010 kl. 04:09
Kæra Benedikta, þakka þér hlýhuginn og ábendingu, 23 sálmurinn er í miklu uppáhaldi hjá mér og það er alltaf styrkur í honum enn á ný takk
Hulda Haraldsdóttir, 19.5.2010 kl. 04:15
Kæri Ómar hjartanlegar þakkir fyrir hlýhug og falleg orð, þau eru mér mikils virði
Hulda Haraldsdóttir, 19.5.2010 kl. 04:32
Ingvi minn kær innilegar þakkir fyrir innlitið og hlýjar kveðjur
Hulda Haraldsdóttir, 19.5.2010 kl. 04:33
Ásdís mín, þakka þér gott innlegg og hlýlegheit það skiptir máli
Hulda Haraldsdóttir, 19.5.2010 kl. 04:37
Mín elskulega Ásthildur, mínar bestu þakkir þú ert yndisleg að vanda og orð þín og hugur eru mér mikils virði og styrkja von og trú og það er aldrei að vita nema ég nýti mér símann.
Hulda Haraldsdóttir, 19.5.2010 kl. 04:54
Heill og sæll Sigurður ég er verulega þakklát fyrir þín fallegu og hlýju orð, þau styrkja og styðja
Hulda Haraldsdóttir, 19.5.2010 kl. 05:01
Kæra Hulda - Gott að heyra frá þér.
Benedikta E, 19.5.2010 kl. 11:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.